Samkeppniseftirlitið hefur sent fyrirspurnir á aðila sem tengjast nýlegum samruna Bergs-Hugins ehf. og Bergs ehf., til að kanna hvort, og þá hvernig, rannsaka beri möguleg yfirráð og eftir atvikum samstarf hlutaðeigandi fyrirtækja. Þetta staðfestir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í samtali við Viðskiptablaðið. Vísbendingar séu uppi um að til staðar séu yfirráð Samherja, eða sameiginleg yfirráð Samherja og tengdra félaga, yfir Síldarvinnslunni.

Undir lok síðasta mánaðar staðfesti eftirlitið samruna Bergs-Hugins og Bergs. Bergur-Huginn er í eigu Síldarvinnslunnar hf. en um 48% hlutafjár í því félagi eru í eigu Samherja hf. og um þriðjungshlutur í eigu Gjögurs hf. Þrír af fimm stjórnarmönnum Síldarvinnslunnar eru skipaðir af eða tengdir þeim aðilum. Samherji hefur gefið það út að félagið hyggist minnka hlut sinn í Síldarvinnslunni við fyrirhugaða skráningu síðarnefnda félagsins á aðalmarkað.

Í ákvörðun sinni sagði eftirlitið að ekki væri tilefni til þess að grípa inn í samruna félaganna tveggja en að mögulega væri tilefni til þess að kanna frekar „eignatengsl Síldarvinnslunnar við keppinauta sína Samherja hf. og Gjögur hf.“ Benti eftirlitið á að vísbendingar væru um þétt stjórnunar- og eignatengsl milli aðilanna sem meðal annars hefðu birst í því að einn stærstu eigenda Gjögurs, Björgólfur Jóhannsson, hefði nýverið gegnt starfi forstjóra Samherja.

Staðan metin að svörum fengnum

„Virt saman fela framangreindar upplýsingar í sér vísbendingar um að stofnast hafi til yfirráða í Síldarvinnslunni umfram það sem samrunaaðilar hafa gert grein fyrir í samrunatilkynningu. […] Samkeppniseftirlitið mun á síðari stigum taka afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti beri að rannsaka möguleg yfirráð og [eftir atvikum] samstarf hlutaðeigandi fyrirtækj,“ segir í ákvörðun eftirlitsins.

„Við höfum leitað sjónarmiða aðila sem tengjast samrunanum með einhverjum hætti,“ segir fyrrnefndur Páll Gunnar við Viðskiptablaðið. Það gildi jafnt um félög sem honum tengjast sem og stjórnvöld sem hafa afskipti af sviðinu, þá helst Fiskistofu og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Þegar svör liggja fyrir verði skoðað hvort tilefni sé til þess að fjalla frekar um málið.

Meðal þess sem kynni að vera athugað, að því fram kemur í ákvörðuninni, er hvort tilkynna hefði átt á fyrri stigum um víðtækari samruna hlutaðeigandi fyrirtækja og hvort samrunatilkynning, vegna samruna Bergs-Hugsins og Bergs, hefði geymt réttar upplýsingar.

Vísbendingar um sterkari tengsl

Í kjölfar samruna Síldarvinnslunnar og Bergs-Hugins árið 2013 hóf Samkeppniseftirlitið rannsókn á því hvort eigna- og stjórnunartengsl væru milli Samherja og Síldarvinnslunnar. Enn fremur stóð til að kanna hvort mögulegt ólögmætt samráð, meðal annars varðandi leigu á kvóta og vinnslu og sölu afurða, hefði átt sér stað. Sú rannsókn var felld niður sumarið 2017 sökum stóraukins fjölda og umfangs samrunamála.

„Það er frummat Samkeppniseftirlitsins að til staðar séu vísbendingar um að yfirráð Samherja eða sameiginleg yfirráð Samherja og tengdra félaga yfir Síldarvinnslunni og að þær vísbendingar hafi styrkst frá því að Samkeppniseftirlitið fjallaði um slík möguleg yfirráð í ákvörðun [um samruna Síldarvinnslunnar og Bergs-Hugins frá 2013],“ segir í ákvörðuninni nú. Þá hafi verið birt opinberlega gögn sem benda til þess að Samherji hafi í eigin gögnum getið Síldarvinnslunnar sem hluta af samstæðunni.

Nýverið tók gildi breyting á samkeppnislögum þar sem veltumörk tilkynningarskyldra samruna voru hækkuð um helming, úr tveimur milljörðum króna í þrjá. Því er viðbúið að samrunatilkynningum muni eitthvað fækka. Eðli málsins samkvæmt eru stærri samrunar yfirleitt tímafrekari í vinnslu og því óljóst hver áhrifin munu verða.

Í Viðskiptablaðinu 11. febrúar síðastliðinn rituðu Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, og María Kristjánsdóttir, lögmaður hjá LEX, grein um þann tíma sem meðferð samrunamála hefur tekið hér á landi hingað til. Magnús Þór Kristjánsson, verkefnastjóri hjá Samkeppniseftirlitinu, birti svargrein í tölublaðinu sem á eftir fylgdi þar sem hann benti á að í samanburðarlöndum tíðkaðist það að víðtækar viðræður og undirbúningur ættu sér oft stað ytra áður en samrunar væru tilkynntir. Slíkt þekktist vart hér á landi.