Hópbílaleigan hefur höfðað nýtt mál gegn ríkinu vegna útboðs Vegagerðarinnar á sérleyfisakstri á Suðurlandi og Suðurnesjum. Fyrirtækið fékk 250 milljónir í bætur fyrir rúmu ári en krefst nú um 200 milljóna í viðbót. Ríkið greiddi Íslenskum aðalverktökum og NCC International tæpar 260 milljónir fyrir rúmum tveimur árum. Það var vegna útboðs Vegagerðarinnar um gerð Héðinsfjarðarganga.

Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Hópbílaleigunnar í skaðabótamálinu, skrifaði grein um skaðabætur vegna brota á útboðsreglum, sem birtist í Afmælisriti Viðars Más Matthíassonar hæstaréttardómara fyrir nokkrum mánuðum. Þar segir hann að áður hafði verið óljóst, bæði á Íslandi og í ýmsum öðrum löndum, hvort bótaréttur bjóðenda gæti náð til hagnaðar eða tekna sem hann hefði orðið af.

Á þessu hefði orðið breyting. „Það liggur nú fyrir að íslenskir dómstólar túlka ákvæði laga um opinber innkaup með þeim hætti að bjóðendur, sem telja sig hafa orðið fyrir barðinu á ólögmætum ákvörðunum kaupanda, geta átt rétt til bóta fyrir slík brot. Skiptir þá ekki máli hvort almennir fyrirvarar séu hafðir í útboðsgögnum um að hafna megi öllum boðum. Allar slíkar  ákvarðanir verða að vera byggðar á málefnalegum forsendum.“ Hann segir að dómstólar hafi ekki gefið tjónþolum neinn afslátt af því að sanna mál sín „og þannig á það líka að vera. Það er því mín niðurstaða að staðan í þessum málaflokki á Íslandi sé til fyrirmyndar, að því er varðar lagasetningu og dómaframkvæmd.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .