Ölgerðin stefnir að því að auka veltu félagsins í 43-46 milljarða króna á næstu fimm árum en félagið velti tæplega 32 milljörðum á síðasta rekstrarári sem lauk í lok febrúar 2022. Það samsvarar um 35-44% tekjuvexti á tímabilinu í heild eða um 6-8% vexti á ári. Þetta kemur fram í nýbirtri skráningarlýsingu Ölgerðarinnar sem til stendur að skrá í Kauphöllina þann 9. júní.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku benti Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, á að fyrirtækið hefði vaxið töluvert á síðustu árum. „Þó að Ölgerðin sé 109 ára gamalt fyrirtæki er þetta í raun vaxtarfyrirtæki," sagði Andri sem verið hefur forstjóri félagsins frá árinu 2004. „Undanfarin tuttugu ár hefur vörusalan að meðaltali aukist um 12% á ári og EBITDA rekstrarhagnaður að meðaltali hækkað um 13% á ári," bætti hann við.

Sjá einnig: Selja 30% í Ölgerðinni

Í lýsingunni kemur einnig fram að félagið hafi sett sér markmið um að EBITDA framlegð (rekstrarhagnaður fyrir afskriftir í hlutfalli við sölutekjur) sé yfir 10%, sem samsvarar þá yfir 4,3-4,6 milljörðum króna árið 2026. EBITDA rekstrarhagnaður Ölgerðarinnar var 3,3 milljarðar króna á síðasta rekstrarári og markmiðið er að það verði 3,6-3,9 milljarðar króna á yfirstandandi rekstrarári. Ölgerðin skilaði methagnaði í fyrra um 1,7 milljörðum króna. 

Meðal annarra markmiða félagsins er að starfsánægja mælist yfir 85%, ánægja viðskiptavina yfir 75% og að sala nýrra vara sé yfir 5% af veltu en hlutfallið nýrra vara af veltu nam 14,2% í fyrra.

Til stendur að selja 29,5% hlut í Ölgerðinni í hlutfjárútboði fyrir skráninguna, sem hefst næsta mánudag og stendur út vikuna. Söluandvirðið verður að lágmarki um 7,4 milljarðar króna. Ölgerðin hóf fundi með fjárfestum í síðustu viku og hyggst halda opin kynningarfund á föstudaginn.