Sú ríkisstjórn sem hefur setið undanfarin fjögur ár ákvað eftir afgerandi kosningu að halda stjórnarsamstarfinu áfram. Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra á fréttafundi þar sem nýr stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar var kynntur á Kjarvalsstöðum.

Sagði Katrín að sáttmálinn snúist fyrst og fremst um loftslags- og umhverfismál, og heilbrigðis- og öldrunarmál, þar sem þjóðin sé að eldast. Auk þess snúist sáttmálinn um hvernig íslenskt samfélag geti mætt tæknibreytingum þannig að þær breytingar nýtist öllum landsmönnum til góðs. Sagði forsætisráðherra að stórar áskoranir væru framundan. Reynt hafi á þanþol ríkissjóðs vegna aðgerða til að bregðast við heimsfaraldrinum. Hún kvaðst þó bjartsýn á að efnahagslífið haldi áfram að taka við sér.

Katrín sagði að ákveðið hafi verið að hreyfa til í stjórnarráðinu. Ýmis verkefni færist m.a. til innviðaráðuneytis, dómsmálaráðuneyti muni heita innanríkisráðuneyti, auk fleiri breytinga. Þessar breytingar endurspegli áherslu ríkisstjórnarinnar og stuðli að því að allir vinni saman sem heild.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði skynsamlegt að staldra við og spegla sig við breytingar í samfélaginu og því hafi verið ákveðið að stokka upp stjórnarráðinu.

Á sviði efnahagsmála verði áfram lagt áherslu á efnahagslegan stöðugleika fyrir heimilin í landinu. Stjórnarsáttmálinn leggi góðan grunn að farsælli framtíð.

Því næst tók Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðráðherra, til máls. Hann benti á að stjórnarsáttmálinn sé auðlesinn og sem dæmi hafi það einungis tekið hann 70 mínútur að lesa upp sáttmálann á miðstjórnarfundi í gær. Sagði Sigurður að ákveðið hafi verið að fjölga atvinnuvegaráðuneytum til að fjölga starfsgreinum og stuðla að fjölgun starfa. Að auki verði lögð áhersla á opinberar fjárfestingar í innviðum. Því sterkari sem kerfin sé því betra. Loks kvaðst hann Hlakka til að hefjast handa og ganga til verks.

Sjá einnig: Ráðherraskipan liggur fyrir

Leggja til að Birgir verði forseti Alþingis

Í viðtali við RÚV sagði Bjarni að Sjálfstæðisflokkurinn myndi tilnefna Birgi Ármannsson sem forseta Alþingis, en Alþingi mun kjósa um þá tillögu er þing kemur saman. Forseti Alþingis mun í þetta skiptið koma úr röðum Sjálfstæðisflokksins, en á síðasta kjörtímabili var Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi þingmaður Vinstri Grænna, forseti Alþingis.

Í tilkynningu sem þingflokkur Vinstri Grænna sendi frá sér fyrir skömmu er farið yfir áherslur stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Hægt er að sjá hana í heild hér að neðan:

Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin grænt framboð hafa gert með sér nýjan sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf.

Sáttmálinn fjallar um sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar þar sem birtast leiðarstef flokkanna um efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða. Tekist verður á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði og í þeirri trú að velsæld verði best tryggð með traustum efnahag, jöfnum tækifærum og aðgerðum í þágu nýsköpunar, umhverfis og loftslags.

Ný ríkisstjórn ætlar að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og byggja upp styrk ríkisfjármálanna á ný á grundvelli öflugs atvinnulífs. Áhersla verður lögð á framúrskarandi umhverfi til verðmætasköpunar, þar sem til verða ný, fjölbreytt og verðmæt störf. Samspil peningastefnu, ríkisfjármála og vinnumarkaðar verður undirstaða þess að unnt sé að tryggja stöðugleika í verðlagi og vöxtum.

Í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar er lögð áhersla á baráttuna við loftslagsbreytingar með samdrætti í losun, orkuskiptum og grænni fjárfestingu. Tekist verður á við það verkefni að búa íslenskt samfélag undir aukna tæknivæðingu auk þess að tryggja áframhaldandi lífskjarasókn allra kynslóða.

Ný ríkisstjórn ætlar að fjárfesta í fólki. Áhersla er lögð á að einstaklingurinn sé hjartað í kerfinu og að öflugt velferðarkerfi sé undirstaða jöfnunar og tryggi að allir geti blómstrað. Áfram verður unnið að því að bæta afkomu eldra fólks, og sérstaklega horft til þeirra ellilífeyrisþega sem lakast standa. Unnið verður að því að tryggja betur fjárhagslega stöðu barnafólks í gegnum skatta og bótakerfi og verður sérstaklega hugað að því að efla barnabótakerfið.