Frumvarp um breytingu á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka var á dagskrá Alþingis í vikunni en Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Í því leggja hún og nokkrir samflokksmenn hennar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga um starfsemi stjórnmálasamtaka, sem varða framlög hins opinbera til stjórnmálastarfsemi og voru lögfest árið 2006. Breytingarnar fela í sér lækkun á framlögum hins opinbera til stjórnmálaflokka.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í sumarlok fengu íslenskir stjórnmálaflokkar samtals úthlutað tæplega 7 milljörðum króna úr ríkissjóði, á verðlagi dagsins í dag, á tímabilinu 2010 til 2022. Þetta kemur til viðbótar við framlög til stjórnmálaflokka í formi aðstoðarmanna og starfsmanna þingflokka samkvæmt ákvörðun á fjárlögum.

Verði frumvarpið að lögum munu stjórnmálasamtök sem hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi í kosningum eiga rétt á 7 milljóna króna grunnrekstrarframlagi úr ríkissjóði á ári hverju, en í dag nemur framlagið 12 milljónum króna. Þá yrðu gerðar breytingar á ákvæði sem segir til að stjórnmálasamtök sem hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í kosningum eigi rétt á úthlutun úr ríkissjóði og hlutfallið hækkað upp í 4%. Auk þess yrði ákvæði – sem segir til um að stjórnmálasamtök sem bjóða fram í þremur kjördæmum eða fleiri geti sótt um sérstakan fjárstyrk úr ríkissjóði til að mæta útlögðum kostnaði við kosningabaráttu, að hámarki 750.000 kr. fyrir hvert kjördæmi sem boðið er fram í – fellt á brott.

Til viðbótar er í frumvarpinu lagðar til breytingar á 7. grein laganna um hámarksframlög og kostnað vegna kosningabaráttu. Samkvæmt 1. málsgrein 7. greinar mega stjórnmálaflokkar ekki taka við hærri framlögum frá lögaðilum en sem nemur 550 þúsund krónum á ári. Stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálasamtaka er þó heimilt að taka á móti framlögum frá lögaðilum umfram þá fjárhæð, alls að hámarki 100 þúsund krónur. Í frumvarpinu er lagt til að fjárhæðirnar verði tvöfaldaðar miðað við núvirðingu fjárhæða laganna. 550 þúsund króna hámarkið myndi því hækka upp í 1,3 milljónir og 100 þúsund krónurnar upp í 240 þúsund. Sama breyting er lögð til á 3. málsgreininni sem kemur inn á hámarksframlög lögráða einstaklinga til stjórnmálasamtaka. Loks er lagt til að ný málsgrein bætist við sem geri stjórnmálasamtökum, sem ekki uppfylla skilyrði til að fá framlag frá hinu opinbera, heimilt að taka á móti framlögum sem nemur allt að tvöföldum hámarksframlögum.

„Þetta var mjög þörf löggjöf sem komið var á árið 2006, þar sem nafnlaus framlög voru m.a. bönnuð, og stuðlaði að auknu gagnsæi. Enda erum við ekki að leggja til að hrófla neitt við þessum gagnsæisreglum. Það er mikilvægt að allt sé uppi á borðum sem tengist fjárframlögum einstaklinga og lögaðila til stjórnmálaflokka. En þetta breytingafrumvarp snýst um að það er nánast búið að svæfa allt stjórnmálastarf í landinu með þessum háu ríkisframlögum. Framlagið fer svo að miklu leyti annars vegar í starfsfólk, og flokkarnir því margir hverjir orðnir stórir vinnustaðir, og hins vegar í auglýsingar. Það er nú öll lýðræðislega umræðan sem þessi framlög eiga að stuðla að,“ segir Diljá Mist.

Flokkarnir orðnir að ríkisstofnunum

Hún segir að með síhækkandi opinberum framlögum, samhliða takmörkun á tekjuöflun stjórnmálaflokka, hafi flokkarnir í raun og veru verið gerðir að ríkisstofnunum. Markmiðið með því að lækka lítillega styrki hins opinbera til stjórnmálaflokka sé því að miða að því að auka sjálfstæði þeirra og óhæði gagnvart hinu opinbera. „Samhliða þessari breytingu er mikilvægt að auka möguleika stjórnmálaflokka á sjálfstæðri tekjuöflun.“ Stjórnmálaflokkum verði þó eftir sem áður sniðinn þröngur stakkur við móttöku framlaga og framlög frá óþekktum aðilum áfram óheimil. Að auki verði áfram skylt að veita upplýsingar um öll fjárframlög til stjórnmálaflokka.

Diljá Mist segir það upplifun sína, eftir að hafa tekið þátt í stjórnmálastarfi frá unglingsaldri, að há framlög hins opinbera til stjórnmálaflokka dragi úr stjórnmálastarfi flokka og tengslum þeirra við flokksmenn sína og við atvinnulífið, enda þurfi flokkarnir sífellt minna á þeim að halda í öruggum faðmi hins opinbera. Hún vísar til greinargerðar frumvarpsins þar sem segir:

„Grundvöllur þess að stjórnmálaflokkar séu hornsteinn lýðræðis í landinu er sá að þar fari fram virk starfsemi og þjóðmálaumræða, en ríkiskostunin hefur dregið úr hvata flokkanna til að sinna því hlutverki. Það er öfugþróun enda eru stjórnmálaflokkar einungis skipulögð lýðræðisleg samtök fólksins sem þá myndar. Í framkvæmd hefur fjárstyrkur hins opinbera því hamlað starfsemi og sjálfstæði stjórnmálaflokka sem gengur þvert á upphaflegt markmið með setningu laganna. Þá hefur fjáraustur hins opinbera til stjórnmálaflokka síst dregið úr umfangsmikilli kosningabaráttu, eins og vonast var til með setningu laganna og er miklum fjármunum skattgreiðenda varið í auglýsingaherferðir stjórnmálaflokka.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.