Neytendastofa hefur sektað Stjörnugrís hf. um 500.000 krónur fyrir brot gegn ákvörðun stofnunarinnar um bann við að nota íslenska fánann á umbúðum matvöru úr innfluttu hráefni.

Samkvæmt ákvörðun Neytendastofu var Stjörnugrís bannað að nota þjóðfána Íslendinga utan á umbúðum matvara sem áttu uppruna að rekja til annarra ríkja en Íslands.

Á heimasíðu Neytendastofu segir að Stjörnugrís hafi brotið gegn ákvörðuninni með því að nota brot úr þjóðfána Íslendinga utan á umbrúðum fyrir grísarif sem voru innflutt frá Þýskalandi.

Samkvæmt ákvörðuninni var í efra hægra horni framhliðar umbúðanna að finna áberandi vísan til brots úr þjóðfána Íslendinga þrátt fyrir að á miða á bakhlið umbúðanna mátti finna tilvísun til þess að upprunaland væri Þýskaland.

„Taldi stofnunin að slík misvísandi skilaboð kynnu að fela í sér villandi upplýsingagjöf til neytenda sem kynni að hafa áhrif á ákvörðun þeirra um að versla með umrædda vöru auk þess sem til álita kæmi hvort fyrirtækinu væri heimilt að nota þjóðfána Íslendinga á umbúðum vörunnar,“ segir jafnframt í ákvörðun Neytendastofu.