Stjórnvöld í olíuríkinu Abu Dhabi hyggjast nú fjárfesta í kvikmyndaframleiðslu.

Áform eru uppi um að setja milljarð bandaríkjadala í fyrirtæki sem mun á næstu árum framleiða átta kvikmyndir í samvinnu við framleiðendur í Hollywood og Bollywood en einnig arabíska framleiðendur.

BBC segir frá því að hið ríkisrekna fjölmiðlafyrirtæki, Abu Dhabi Media Company, (ADMC), hyggist beita sér í auknum mæli fyrir framleiðslu kvikmynda á svæðinu. Það mun vera liður í stóru verkefni sem ber nafnið „hugmyndaflug Abu Dhabi.“

ADMC framleiðir nú þegar mikið af afþreyingarefni bæði í formi dagblaða og fyrir sjónvarp.