Eigendabreytingar hafa átt sér stað á eignarhaldi Fasteignafélags Íslands ehf. og í móðurfélagi Eikar fasteignafélags hf., Eikarhaldi ehf.

Samhliða hefur nafni Eikarhalds ehf. verið breytt í Eik Properties ehf.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en það var Fyrirtækjaráðgjöf Glitnis sem var umsjónaraðili verkefnisins.

Samkvæmt tilkynningunni á Eik Properties ehf. nú allt hlutafé í Eik fasteignafélagi hf. og mun eiga því til viðbótar 100% eignarhlut í Fasteignafélagi Íslands ehf., 64% hlut í Glitni Real Estate Fund hf. og 10% eignarhlut í Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf.

Saxbygg ehf. er stærsti eigandi félagsins og kjölfestufjárfestir með um 52% eignarhald, Glitnir með um 46% eignarhlut og aðrir fjárfestar með tæp 2%.

Samkvæmt tilkynningunni leggur Saxbygg 65,97% hlut sinn í Fasteignafélagi Íslands ehf. og 20,2% hlut sinn í Glitni Real Estate Fund hf. til Eik Properties í skiptum fyrir nýtt hlutafé.

Glitnir eignast hlut í nýju félagi fyrir 33,69% hlut bankans í Fasteignafélagi Íslands ehf. og um 71,7% hlut í fasteignafélaginu Eikarhaldi ehf.

Samhliða þeim samningum hefur Glitnir framselt hlut sinn í Fasteignafélagi Íslands ehf., 10% af hlutafjáreign sinni í Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. og um 44,44% hlut í Glitni Real Estate Fund hf. til Eik Properties hf. í skiptum fyrir nýtt hlutafé.

„Markmið félagsins er að vaxa á næstu árum hér á landi og erlendis með þátttöku í kaupum á fasteignum og fasteignafélögum og eigendur stefna að skráningu félagsins þegar fram í sækir,“ segir í tilkynningunni.

_______________________________________

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .