Stóra markaðsmisnotkunarmálinu gegn fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar og verður þar flutt í sömu mynd og fyrir héraðsdómi hvað varðar fjölda sakborninga. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins.

Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu hvað varðar alla sakborninga að undanskildum þáttum Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar og Bjarka H. Diego. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru þeir fyrri til að áfrýja málinu.

Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, fékk þyngstu refsinguna í héraði en þar var hann dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Einar Pálmi Sigmundsson hlaut tveggja ára fangelsisvist, en refsingu hans er frestað haldi hann almennt skilorði. Þá voru Pétur Kristinn Guðmarsson og Birnir Sær Björnsson dæmdir í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi. Magnús Guðmundsson og Björk Þórarinsdóttir voru sýknuð.

Þá var Bjarki H. Diego dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi. Sigurður Einarsson var dæmdur í ársfangelsi til viðbótar refsingu sinni í Al Thani-málinu. Hreiðar Már Sigurðsson var sakfelldur en honum ekki gerð frekari refsing vegna sama máls.

Réttarhöld í málinu stóðu samtals í 22 daga og er málið eitt það umfangsmesta sem komið hefur fyrir dómstóla í sögunni. Um fimmtíu vitni gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi.

Í málinu var hinum ákærðu gefið að sök að hafa stundað umfangsmikil viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi í þeim tilgangi að stýra verðmyndun á hlutabréfum bankans. Í ákæru sérstaks saksóknara var því haldið fram að blekkingar og sýndarmennska hefði verið grunnur þessara umfangsmiklu viðskipta.