Dominique Strauss-Kahn er nú nefndur sem líklegur eftirmaður Rodrigo de Rato í embætti framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) í kjölfar þess að Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti lýsti yfir stuðningi við hann í viðtali við franska tímaritið du Dimanche um helgina. Strauss-Kahn gegndi stöðu fjármálaráðherra í ríkisstjórn Lionel Jospin í lok tíunda áratugarins en þurfti að segja af sér sökum ásakana um fjármálahneyksli.

Stuðningsyfirlýsing Sarkozy kemur mörgum á óvart sökum þess að Strauss-Kahn hefur löngum verið einn af hans helstu keppinautum á hinum pólitíska vettvangi í Frakklandi. Sú staðreynd breytti þó ekki því að Sarkozy sagðist telja að þessi fyrrum fjármálaráðherra Frakklands væri "hæfileikaríkastur" til þess að verða framkvæmdastjóri IMF. Í frétt Financial Times á sunnudaginn segir að Frakklandsforseti sé nú þegar búinn að afla sér stuðnings leiðtoga Bandaríkjanna, Spánar, Ítalíu og Bretlands. Þýski fjármálaráðherrann, Peer Steinbruck, hefur einnig sagst styðja Strauss-Kahn og lýst honum sem "góðum evrópskum frambjóðenda".

Maður með reynslu, trúverðugleika og tungumálakunnáttu
Stuðningur ítalskra stjórnvalda við Strauss-Kahn er nokkuð óvæntur ef rétt reynist, en í síðustu viku greindi bandaríska dagblaðið Wall Street Journal frá því að Ítalar hefðu gert kröfu um að þarlendur ríkisborgari myndi verða skipaður í stöðu yfirmanns sjóðsins í fyrsta skipti.

Í viðtali við du Dimanche sagði Sarkozy að sá frambjóðandi sem myndi hreppa stöðu framkvæmdastjóra IMF þyrfti að vera gæddur ýmsum kostum, meðal annars að vera álitinn trúverðugur, hafa ómælda reynslu og tala fjölmörg tungumál. "Og Strauss-Kahn hefur alla þessa hæfileika", sagði Sarkozy.

Það er aftur á móti enn óljóst hvort Strauss-Kahn hafi einhvern áhuga á starfinu. Hann hafði hugsað sér að taka þátt í komandi forystuslag Sósíalistaflokksins á næsta ári og fara þar með í forsetaframboð gegn Sarkozy árið 2012. Sumir stjórnmálaskýrendur telja af þessum sökum að það hafi ekki verið nein tilviljun að baki þeirrar ákvörðunar Sarkozy að lýsa yfir stuðningi við Strauss-Kahn: Með þessu móti tekst honum að losa sig við hugsanlega öflugan mótframbjóðanda úr röðum sósíalista.

Fjármálaráðherrar aðildarríkjanna 27 í Evrópusambandinu (ESB) munu á mánaðarlegum fundi sínum sem hófst í gær ræða nöfn hugsanlegra frambjóðenda í stöðu framkvæmdastjóra sjóðsins.