Þýska kauphöllin Deutsche Börse hefur blandað sér í baráttuna um Euronext kauphöllina og lýst yfir að hún bjóði 7 evrum á hlut meira en kauphöllin í New York, NYSE, hefur boðið. Stjórn Euronext hefur þó sett strik í reikninginn og lýst yfir að tilboð Deutsche sé í raun "eins" og tilboð NYSE og sé "villandi".

Fannie Mae borgar 400 milljónir dollara

Húsnæðissjóðurinn bandaríski Fannie Mae hefur samið við eftirlitsaðila um að greiða 400 milljónir dollara, tæpa 29 milljarða króna, til að koma í veg fyrir frekari málaferli. Fyrirtækinu er gefið að sök að hafa hagrætt bókhaldsreglum til að geta greitt stjórnendum hærri kaupauka.

Hagtölur sýna aukna einkaneyslu í Þýskalandi

Tölur sem sýna mesta vöxt í einkaneyslu í meira en ár þykja renna stoðum undir þá kenningu að hagvöxtur í Þýskalandi sé að ná til fleiri geira en útflutnings. Verg þjóðarframleiðsla jókst um 0,4% á fyrsta ársfjórðungi, sem þýðir 2,9% á ársgrundvelli.

Hráefnapantanir á evrusvæðinu minnka í mars

Pantanir verksmiðja á evrusvæðinu minnkuðu um 2,4% í mars frá fyrri mánuði, en hækkuðu um 12,1% frá mars 2005. Mest lækkun varð á pöntunum á málmum, en sérfræðingar höfðu búist við hækkun um 0,2% í mánuðinum og 13,3% á árinu.

OECD býst við "hóflegum bata" á evrusvæðinu

Búast má við "hóflegum bata" á evrusvæðinu og ætti batinn að verða meiri þar en á öðrum efnahagssvæðum í heiminum, eftir erfitt ár 2005, að því er fram kemur í skýrslu OECD.

Tap breytist í hagnað hjá Converium

Hlutabréf í svissneska endurtryggingafélaginu Converium hækka um 4% eftir tilkynninginu um að hagnaður á fyrsta ársfjórðungi hafi numið 61,6 milljónum dollara, eða 4,5 milljörðum króna, borið saman við tap upp á 5,5 milljónir dollara á sama tíma 2005. Niðurskurður og hagstætt árferði í kröfum á félagið veldur umsnúningnum.

Tilboð í AB Ports hækkað

Hlutabréf í breska hafnarekstrarfélaginu Associated British Ports hækka um 15% í kjölfar tilkynningar um að fjárfestahópur undir forystu Goldman Sachs hafi hækkað tilboð sitt í félagið. Hópurinn hækkar tilboðið um upp í 810 pens á hlut, sem verðleggur félagið á 2,4 milljarða punda, eða 324 milljarða íslenskra króna.

Babcock býður 2,4 milljarða evra í Eircom

Írska fjarskiptafélagið Eircom samþykkir tilboð frá Babcock & Brown Capital, upp á 2,416 milljarða evra, eða 222 milljarða króna. Babcock segist ætla að einblína á að styrkja breiðbands- og farsímastarfsemi Eircom.

S&P breytir horfum Japans í jákvæðar

Matsfyrirtækið Standard & Poors breytir horfum fyrir lánshæfismat japanska ríkið í jákvæðar og kemur það markaðsaðilum á óvart. Í kjölfarið hækkar gengi japanska jensins gagnvart dollar.

Tekjur EMI hækka enn

EMI segir að hagnaður reikningsársins hækki um 14% frá fyrra ári, vegna vaxandi tekna og markaðshlutdeildar. Þá lýsir fyrirtækið því yfir að það hafi enn áhuga á að kaupa keppinaut sinn Warner Music. Hagnaður EMI á árinu nam 86,1 milljón punda og tekjur 2,08 milljörðum punda.