*

fimmtudagur, 17. júní 2021
Innlent 13. ágúst 2019 13:10

Svikarar líkja eftir Viðskiptablaðinu

Í annað sinn á innan við ári reyna svikarar að blekkja fólk til Bitcoin kaupa með falsfrétt sem líkist útliti vb.is.

Ritstjórn
Viðskiptablaðið er til húsa á efri hæð Ármúla 10, en á falsfréttasíðunni hefur heimilisfangið verið afritað en með þó þeirri breytingu að götuheitið á að vera Ármúlo 10.
Haraldur Guðjónsson

Hermt er eftir útliti frétta á vef Viðskiptablaðsins í falsfréttum um að hægt sé að ná skjótfengnum gróða af viðskiptum með Bitcoin í auglýsingum sem fjölmargir Íslendingar hafa séð á Facebook undanfarið. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir hartnær ári síðan líkir falsfréttin eftir blaðinu en sleppir L í blaðið svo síðan ber titilinn Viðskiptabaðið.

Hafa margir glöggir lesendur haft samband við ritstjórnina vegna fréttanna sem varla ætti að þurfa að taka fram eru hreinn uppspuni enda sagt að hægt sé að verða milljónamæringur á nokkrum mánuðum með notkun kerfisins. Eru lesendur hvattir til að tilkynna síðuna með einföldum smelli sem hægt er að gera í efra hægra horni auglýsinganna.

Annað sem ætti að gefa Íslendingum glöggt til kynna að um fals sé að ræða, fyrir utan hve illa fréttirnar eru settar upp, skrifaðar og hafa furðulega hluti eftir nokkrum þekktum frammámönnum og öðrum í íslensku samfélagi eru fréttirnar sem prýða listann yfir mest lesið.

Sama afrit og fyrir ári

Ljóst má vera að um sama afrit er að ræða og notað var í september í fyrra, þar sem mest lesna fréttin er frá 13. september í fyrra og ber fyrirsögnina Skúli sér í land, en síðan hefur ýmislegt gerst í flugvélarekstri Skúla Mogensen í hinu fallna Wow air.

Ýmsu öðru hefur þó verið breytt, en þá voru meðal þeirra sem áttu að hafa auðgast á kerfinu Björgólfsfeðgarnir, Jón Ásgeir Jóhannesson, Rúnar Freyr Gíslason og Eggert Magnússon, en í nýju útgáfunni er ljóst að áðurnefndur Skúli Mogensen er einn þeirra sem hafður er fyrir rangri sök.

Annað sem hefur verið breytt er að eilítið færri hafa skrifað athugasemd við nýju fréttina en þá gömlu, en þar átti að líta út fyrir að hartnær þriðjungur þjóðarinnar, eða ríflega 116 þúsund manns hefðu skrifað athugasemdir en nú er mun hóflegri tala eða 544 ummæli.

Viðskiptablaðið varar eindregið við að lesendur fylgi ráðleggingum falsfréttasíðunnar eða taki þeim trúanlegum um að hægt sé með leyniaðferðum sem deilt sé með almenningi að græða stórfé, svona áður en Seðlabankinn grípur inn í eins og ýjað er að í falsfréttinni.