UBS-bankinn mun fá 5,3 milljarða Bandaríkjadala frá svissneskum stjórnvöldum í formi breytanlegra skuldabréfa.

Þetta jafngildir 9% hlut í bankanum en hann hefur þurft að afskrifa 44 milljarða dali vegna hrunsins á markaðnum með bandarísk undirmálslán og hafa fáir bankar í Evrópu þurft að taka á sig sambærilegan skaða frá því að lánsfjárkreppan skall á.

Auk þessa hefur svissneski seðlabankinn sett á laggirnar sjóð sem mun taka við eitruðum veðum úr bókum UBS að andvirði 60 milljarða dala. Meðal þessara veða eru fjármálagerningar í tengslum við bandarísk undirmálslán og námslán auk annarra fasteignatryggðra skuldabréfa að andvirði 31 milljarðs dala.

Á sama tíma og tilkynnt var um þetta lýstu forráðamenn Credit Suisse því yfir að erlendir fjárfestar hefðu komið með nýtt hlutafé inn í bankann að andvirði 8,8 milljarða dala. Meðal fjárfestanna er katarski ríkifjárfestingasjóðurinn, en hann hafði tekið umtalsverða stöðu í bankanum.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .