*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 3. janúar 2020 16:19

Sýn sektað um 400 þúsund krónur

Neytendastofa hefur bannað Sýn hf. að fullyrða í viðskiptaboðum sínum að Stöð 2 Maraþon sé „stærsta áskriftaveita landsins“.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Neytendastofa hefur bannað Sýn hf. að fullyrða í viðskiptaboðum sínum að Stöð 2 Maraþon sé „stærsta áskriftaveita landsins“. Því til viðbótar þarf félagið að greiða 400 þúsund krónur í sekt vegna þessa. Þetta felst í ákvörðun stjórnvaldsins sem kynnt var í dag. 

Uppfært 19:36 Rétt er að árétta það að sú fullyrðing Sýnar að efnisveita félagsins væri sú stærsta með íslenskt efni stóð. Fullyrðingin um að Stöð 2 Maraþon væri „stærsta áskriftarveita landsins“ stóðst hins vegar ekki mat Neytendastofu.

Kvörtun vegna málsins barst frá Símanum hf. í október í fyrra. Taldi fyrirtækið að Sýn hefði brotið ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með fullyrðingunum „Stærsta efnisveita landsins með íslenskt sjónvarpsefni“ og „Mesta úrval íslensks efnis og þú horfir hvar og hvenær sem þú vilt!“ Að mati Símans var ekki að sjá að hægt væri að komast að þeirri niðurstöðu að ofangreindar fullyrðingar stæðust.

Sýn var gefinn kostur á að svara kvörtun Símans. Benti fyrirtækið á að löng hefð væri fyrir því að fyrirtæki notuðu lýsingarorð í efsta stigi í auglýsingum og kynningarefni. Áður en umræddar auglýsingar voru keyrðar var gerður samanburður við Sjónvarp Símans Premium. Leiddi sá samanburður í ljós að framboð innlendra þátta og kvikmynda hefði verið meiri í Stöð 2 Maraþon heldur en í Sjónvarpi Símans Premium. Hið sama hefði gilt eftir að kvörtun Símans barst.

Í andsvörum Símans kom fram að fyrirtækið teldi að Sýn væri að slá ryki í augu Neytendastofu með því að halda því fram að aðeins væri verið að auglýsa að Sýn hefði fleiri íslenska titla í efnisveitu sinni. Þá gengi það ekki upp að segja Stöð 2 Maraþon stærstu efnisveitu „landsins“ enda lægi það fyrir að miklu stærri erlendar streymisveitur væru starfandi hér á landi, til að mynda Netflix, Amazon Prime, Hulu og Apple.

Sýn fékk á ný kost á að bera hönd fyrir höfuð sér. Í andmælum fyrirtækisins segir að málatilbúnaður Símans hafi breyst undir meðferð málsins. Upphaflega hafi Síminn kvartað yfir því að „í auglýsingunum [sé] fullyrt að efnisveita Vodafone innihaldi mesta magn íslensk sjónvarpsefnis“. Sýn hafi fært sönnur á þann hluta málsins.

„Nú þegar Sýn hafi fært sönnur á einmitt þetta, þ.e. með samanburði á magni í formi fjölda titla sem sé eina leiðin til að mæla magn, sé því nú haldið fram, í beinni andstöðu við fyrri tilvitnun að framan, að „hvergi [megi] finna því stað í auglýsingum Vodafone að auglýsingarnar beri með sér að Vodafone hafi fleiri titla í efnisveitunni Stöð 2 Maraþon,“ segir meðal annars í síðara andmælabréfi Sýnar.

Í niðurstöðu Neytendastofu segir að Sýn hafi tekist að sanna að aðrar efnisveitur bjóði upp á minna úrval af íslensku sjónvarpsefni en Stöð 2 Maraþon. Sá þáttur málsins stóð því óhaggaður og Sýn hafði ekki brotið af sér með því. Hins vegar hafi Sýn ekki tekist að færa sönnur á að Stöð 2 Maraþon væri „stærsta efnisveita landsins“. Að mati Neytendastofu var sú fullyrðin líkleg til að hinn almenni neytandi tæki viðskiptaákvörðun sem hann hefði annars ekki tekið og að fullyrðingin væri líkleg til að raska fjárhagslegri hegðun neytenda.

Með hliðsjón af umfangi brotsins sem og fyrri ákvarðana Neytendastofu gagnvart Sýn – fyrirtækið braut gegn sömu lögum árið 2016 með fullyrðingum um 4G dreifikerfi sitt sem og sjónvarpsdreifikerfið – var ákveðið að gera Sýn að greiða 400 þúsund krónur í stjórnvaldssekt vegna brotsins.