*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 6. nóvember 2019 18:07

Tap á fjórðungnum og kaup á Endor

Sýn hf. tapaði 71 milljón króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 207 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra.

Ritstjórn
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýn.
Eva Björk Ægisdóttir

Sýn hf. tapaði 71 milljón króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 207 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra. EBITDA félagsins á ársfjórðnungnum nam 1.623 milljónum og lækkaði um 162 milljónir milli ára. Tapið nú skýrist að mestu af einskiptiskostnaði vegna uppgjörs á vaxtasamningi og starfslokagreiðslum. Hagnaður fyrstu níu mánaða ársins er nú 384 milljónir króna sem skýrist af söluhagnaði á P/F Hey, dótturfélagi Sýnar í Færeyjum.

Heildartekjur félagsins drógust saman um rúmlega 160 milljónir á milli samanburðarfjórðunga og voru 4.878 milljónir. Tekjur á fyrstu þremur mánuðum ársins hafa samanlagt dregist saman um rúmlega 450 milljónir króna. Handbært fé frá rekstri nam 1.235 milljónum og jókst um 50 milljónir milli samanburðarfjórðunga. 

„Uppgjörið er vitnisburður um að við höfum náð tökum á rekstrinum. Nýtt spáferli sem unnið er eftir gefur okkur mun betri mynd af undirliggjandi þáttum og við teljum að það muni leiða til frekari bata í rekstri á næstu fjórðungum. Sjóðstreymi 3. ársfjórðungs batnar á milli ára og reksturinn batnar umtalsvert frá öðrum ársfjórðungi. Aðgerðir sem gripið var til í sumar, með endursamningum við birgja og fækkun stöðugilda mun koma fram í rekstri við lok ársins og að fullu á nýju ári,“ er haft eftir Heiðari Guðjónssyni, forstjóra Sýn, í tilkynningu.

Þá tilkynnti Sýn einnig í dag að samkomulag hefði náðst um kaup félagsins á öllu hlutafé í upplýsingatæknifyrirtækinu Endor. Samkomulagið er venju samkvæmt háð fyrirvörum frá Samkeppniseftirlitnu. 

Fyrst var sagt frá fyrirhuguðum viðskiptum í Viðskiptablaðinu í sumar. „Með kaupunum teljum við að við getum sótt frekar inn á þennan markað alþjóðlega, að færa rekstur á ofurtölvum og gagnaverum til Íslands. Við sjáum líka fram á að geta dýpkað þjónustuna við þau fyrirtæki sem eru í viðskiptum við okkur nú þegar. Við verðum þá komin með teymi sem er sérhæft upplýsingatæknirekstri og meðhöndlun síaukins gagnamagns,“ sagði Heiðar af því tilefni.

Stikkorð: Sýn