Einkahlutafélag um læknisþjónustu á ekki rétt á lokunarstyrk þar sem tekjufall stofunnar í apríl á síðasta mánuði náði ekki viðmiðunarþröskuldi. Ástæðan fyrir því var sú að læknirinn sinnti sjúklingum í tilfellum sem ekki þoldu bið og ýtti það félaginu yfir mörkin.

Sem kunnugt er var samfélaginu nánast skellt í lás fyrri hluta síðasta árs eftir að veirufaraldurinn náði hingað til lands. Hvers kyns starfsemi, nema sú allra nauðsynlegasta, lagðist til að mynda af og gilti það einnig um þjónustu lækna. Þó máttu þeir taka á móti sjúklingum ef það gat engan vegin beðið.

Téður læknir málsins sinnti boðum yfirvalda og stöðvaði starfsemi sína. Þó tók hún á móti sjúklingum og veitti þeim nauðsynlega þjónustu sem enga bið þoldi. Tekjufall starfseminnar varð gífurlegt eða rúmlega 68%. Lög um lokunarstyrk áskilja aftur á móti að tekjufall verði að vera 75% til að eiga rétt á styrknum.

Félagið sótti um lokunarstyrk en fékk synjun frá Skattinum þar sem lögin veittu engar undanþágur. Eftir á að hyggja hefði það því verið hagkvæmara, frá fjárhagslegum sjónarhóli félagsins, að sleppa því að taka á móti nokkrum sjúklingum til þess að eiga rétt á styrknum.

Niðurstaða Skattsins var kærð til yfirskattanefndar og var byggt á því að við mat á tekjufalli bæri að aðskilja nauðsynlega þjónustu sem sérstaklega var undanþegin samkvæmt reglugerðinni. Konan taldi að sér hefði einfaldlega borið skylda til að sinna sjúkum í bráðatilfellum og ómálefnalegt og órökrétt væri að láta hana bera skertan hlut frá borði fyrir að sinna samfélagslegri skyldu sinni á tímum heimsfaraldurs.

„Skilyrði[ð] um a.m.k. 75% tekjusamdrátt milli ára er afdráttarlaust og án nokkurs fyrirvara. Þá er ljóst af framangreindum athugasemdum í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að af hálfu nefndarinnar var litið svo á að í tilviki rekstraraðila með margþætta starfsemi, sem þurft hefðu að láta af hluta starfseminnar en ekki allri, yrði miðað við tekjur af heildarstarfsemi rekstraraðila við mat á umfangi samdráttar,“ segir í niðurstöðu yfirskattanefndar og var kröfu félagsins því hafnað.