*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 3. mars 2021 15:38

Tekjur Avo tífölduðust á síðasta ári

Nýsköpunarfyrirtækið bætti við sig viðskiptavinum á borð við Fender, Turo, Doodle og Patreon á síðastliðnu ári.

Ritstjórn
Stefanía Bjarney Ólafsdóttir og Sölvi Logason, stofnendur Avo
Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir

Tekjur íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Avo tífölduðust, starfsmannateymið þrefaldaðist og notkun núverandi viðskiptavina á hugbúnaði fyrirtækisins jókst um meira en 200% á síðastliðnu ári, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Avo gefur í dag út nýja uppfærslu af hugbúnaði sínum. 

Vöxtur Avo er fyrst og fremst erlendis. Síðastliðið ár hefur fyrirtækið bætt við sig fjölmörgum nýjum viðskiptavinum úr fjölbreyttum geirum. Má þar meðal annars nefna gítarfyrirtækið Fender, stærsta bíla-deilifyritæki heims Turo, fundaskipulagstólið Doodle og hugbúnaðarfyrirtækið Patreon. Fyrirtækið tilkynnti um 419 milljón króna fjármögnun frá Kísildalnum síðastliðið haust.

Sölvi Logason og Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, stofnendur Avo, stýrðu áður gagnagreind hjá Plain Vanilla Games við gerð leikjarins QuizUp. Avo er fjarvinnufyrirtæki og er með starfsfólk um allan heim, í Reykjavík, San Francisco, Portland, Moskvu og víðar.

Fyrirtækið þróar gagnastjórnunar hugbúnað fyrir stafrænar vörur og leiðir byltingu í skilningi fyrirtækja á notendaupplifun. Í dag gefur Avo út nýja uppfærslu af hugbúnaði sínum, sem gerir vörustjórum kleift að besta greiningu notendaupplifunar, en áreiðanleiki gagna er lykilþáttur í árangursríkri stafrænni vöruþróun. Fyrirtækið kynnir vöruna til leiks í dag á vefsíðunni Product Hunt.

„Avo hefur verið á hraðri siglingu síðastliðið ár. Við erum gífurlega spennt að setja nýja útgáfu af Avo í loftið sem gerir teymum af öllum stærðum kleift að byrja strax í dag að nýta gögnin sín betur til að skilja notendaupplifun. Ég gæti ekki verið stoltari af teyminu og það eru gífurleg forréttindi að fá að vinna með svona frábæru teymi að vandamáli sem við erum búin að vera með á heilanum á næstum áratug,“ er haft eftir Stefaníu.