*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 19. nóvember 2020 17:50

Telja Samherja heppilegan eiganda

Stjórnarmaður í Eimskipi mun ekki taka yfirtökutilboði Samherja. Samherji vonaðist til að sem flestir höfnuðu tilboðinu.

Ritstjórn
Samherji boðar yfirtökutilboð í Eimskip.
Aðsend mynd

Stjórn Eimskips telur Samherja heppilegan eiganda að hlutum í félaginu í ljósi reynslu félagsins af alþjóðlegum skiparekstri og sjávarútvegi. Þetta kemur fram í greinargerð stjórnarinnar vegna boðaðs yfirtökutilboðs Samherja í Eimskip.

„Í ljósi fyrirliggjandi reynslu tilboðsgjafa í alþjóðlegum skiparekstri og sjávarútvegi þá má ætla að aðkoma hans að félaginu verði félaginu til góðs og geti orðið til þess að styrkja hagsmuni félagsins," segir í greinargerðinni.

Stjórnarmennirnir sem komu að greinargerðinni telja ekki tilefni til að ætla að yfirtökutilboð tilboðsgjafa hafi neikvæð áhrif á hagsmuni Eimskips, stjórnenda eða starfsmanna félagsins. Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips og einn eigenda Samherja hf., kom ekki að gerð greinargerðarinnar. 

Yfirtökuskyldan myndaðist þegar Samherji Holding fór yfir 30% eignarhlut í Eimskip í annað sinn á þessu ári þann 21. október. Í greinargerðinni er bent á að yfirtökutilboðið, sem miðast við 175 krónur á hlut sé hærra en Samherji hugðist bjóða í mars. Þá fékk félagið undanþágu frá yfirtökuskyldu hjá fjármálaeftirliti Seðlabankans. Gengi bréfanna var 167,5 krónur á hlut degi áður en tilkynnt var um yfirtökutilboðið í október. Síðan þá hefur gengi bréfanna hækkað í 206 krónur á hlut. Því bendir stjórnin á að yfirtökutilboðsverðið sé lægra en núverandi markaðsvirði bréfa félagsins.

Lárus L. Blöndal er eini stjórnarmaðurinn sem kom að greinargerðinni sem á hluti í Eimskipi. Hann hyggst ekki samþykkja yfirtökutilboðið í þau bréf sem eru eign hans persónulega.  

Sjá einnig: Býst við að flestir segi nei

Þorsteinn Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði við Viðskiptablaðið að hann ætti von á að flestir hluthafar myndu hafna yfirtökutilboðinu. 

Samherji vill halda Eimskip í Kauphöll Íslands og hefur ekki boðað breytingar á stefnu félagsins eða yfirstjórn. Samherji Holding er systurfélag útgerðarfélagsins Samherja hf. Stærstu eigendur Samherja Holding eru Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Helga Steinunn Guðmundsdóttir. 

Stikkorð: Eimskip Samherji