Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri eldsneytis hjá N1, telur ekki líklegt að verð á eldsneyti haldi áfram að lækka hér á landi í takt við þróuninni a heimsmarkaðsverði og styrkingu krónunnar. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að N1 hafi lækkað verð á eldsneyti um þrjár krónur í gær. Verðið hefur lækkað um tæpar 22 krónur frá lokum febrúar.

„Þetta er afar sérstakt núna. Ef það er eitthvað sem maður getur sagt að sé eðlilegt á markaði þá værum við frekar að sigla inn í hæsta verð ársins en það er ekki að gerast. Það virðast vera efnahagslegar aðstæður úti í hinum stóra heimi sem valda lækkun á heimsmarkaðsverðinu,“ segir Magnús í samtali við blaðið og telur m.a. til að gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal hafi styrkst um átta krónur frá því í lok febrúar.

„Ég hef ekki trú á því að verðið á heimsmarkaði haldi áfram að lækka svona mikið þó að það gæti lækkað eitthvað í viðbót,“ segir hann.