Of mikið peningamagn er nú í umferð í íslensku hagkerfi sem mun að óbreyttu ýta undir verðbólgu og eignabólu og gera afnám hafta illmögulegt á næstu árum. Þessa miklu peningaprentun má líta á sem eftirstöðvar af fjármálabólunni 2004-2008 sem er nauðsynlegt að hreinsa upp til þess að smækka bankakerfið og ná nýju jafnvægi í efnahagslífinu. Annars er hætta á viðvarandi óstöðugleika og þrýstingi til veikingar krónunnar næstu misserin þegar aðlögunin finnur sér farveg með verðbólgu er lækkar virði peningaprentunar að raunvirði.

Þetta er mat Ásgeirs Jónssonar, lektors í hagfræði við Háskóla Íslands og efnahagsráðgjafa GAMMA, en rætt er við hann í Morgunblaðinu um erindi sem hann flutti nýlega í Háskóla Íslands um þá hættu sem peningaprentun áranna 2004-2008 skapar fyrir íslenskt fjármálakerfi.

Nú séu um 1.600 milljarðar króna af lausu fé í umferð og sú upphæð hafi nánast staðið í stað frá 2008. Hins vegar séu neikvæðir raunvextir innlána smátt og smátt að vinna raunpeningamagn niður. Peningar á óverðtryggðum bankabókum hafi hægt og bítandi brunnið upp sem sjáist vel á því að hlutfall peningamagns af landsframleiðslu hafi verið um 113% í árslok 2008 en sé nú um 93%. Það sé þó miklu meira en áður hefur þekkst í sögu landsins. Telur Ásgeir að líklega þurfi að ná því niður í 60-70% til þess að jafnvægi náist í peningaframboðinu - jafnvægi milli peningamagns og verðmæta í hagkerfinu. Það feli í sér að annaðhvort þurfi að brenna upp 400-500 milljarða kr. með verðbólgu eða draga úr peningamagninu með öðrum hætti.