David Cameron mun segja af sér forsætisráðherrastólnum á morgun og Theresa May, nýkjörinn formaður Íhaldsflokksins mun taka við.

Umdeild ummæli fella mótframbjóðanda

Cameron hafði upphaflega ætlað að sitja til hausts þegar nýr formaður yrði kjörinn af 150.000 meðlimum flokksins sem myndu þá velja milli þeirra tveggja sem þingflokkurinn myndi velja af þeim sem buðu sig fram. En eftir að mótframbjóðandi May, Andrea Leadsom dró sig úr baráttunni í kjölfar umdeildra ummæla um leiðtogahlutverkið og móðurhlutverkið, er May sjálfkjörinn leiðtogi flokksins.

„Augljóslega í kjölfarið á þessum breytingum, þurfum við ekki að hafa langt millibilsástand. Svo á morgun mun ég sitja í forsæti í mínum síðasta ríkisstjórnarfundi. Á miðvikudag mun ég sitja fyrir spurningum í þinginu,“ sagði Cameron í gær.

„Í kjölfarið á því mun ég fara til hallarinnar og segja af mér. Því munum við hafa nýjan forsætisráðherra í byggingunni fyrir aftan mig á miðvikudagskvöld,“ sagði Cameron á blaðamannafundi fyrir framan Downingstræti 10, opinbert aðsetur forsætisráðherra Bretlands.

Efasemdarmanneskja um ESB og mun framfylgja Brexit

Þó Theresa May hafi barist fyrir áframhaldandi veru landsins í Evrópusambandinu er hún þekkt fyrir að hafa haft lengi efasemdir um sambandið sem og hún hefur lýst því yfir að hún muni hlýta ákvörðun þjóðarinnar í atkvæðagreiðslunni sem fram fór 23. júní síðastliðinn.

„Brexit þýðir Brexit, og við munum gera það vel úr garði gert. Það verða engar tilraunir til að halda áfram að vera í Evrópusambandinu. Engar tilraunir til að fara aftur inn í gegnum bakdyr. Engin önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. Þjóðin kaus að yfirgefa Evrópusambandið, og sem forsætisráðherra, mun ég tryggja að við munum yfirgefa sambandið,“ sagði hún í gær.