Stjórnarmenn í Isavia, sameinuðu félagi Flugstoða og Keflavíkurflugvallar, fá í sinn hlut 115 þús.kr. á mánuði í stjórnarlaun. Formaður stjórnar fær tvöfalda þá upphæð, þ.e. 230 þús.kr., og varamenn 55 þús.kr. fyrir hvern setinn fund.

Þórólfur Árnason er sem kunnugt er stjórnarformaður Isavia og leiddi sameiningu fyrrnefndra félaga í byrjun síðasta árs. Aðrir í stjórn eru Ragnar Óskarsson varaformaður, Arnbjörg Sveinsdóttir fyrrv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ásta Rut Jónasdóttir fyrrv. starfsmaður Actavis og Jón Norðfjörð athafnamaður úr Sandgerði.

Stjórnin er pólitískt skipuð af fjármálaráðherra og samkvæmt upplýsingum frá Isavia fá stjórnarmenn ekki greiddar aðrar þóknanir fyrir stjórnarsetu. Viðskiptablaðið sendi fyrirspurn til Isavia þar sem spurt var um stjórnarlaun og skipan stjórnarmanna. Rétt er að taka fram að stjórnarmönnum í Isavia hefur fækkað, úr sjö í fimm.

Tók við af Rannveigu

Einnig var spurt um stjórn Fríhafnarinnar ehf. sem er dótturfélag Isavia. Það er stjórn Isavia, í samráði við fjármálaráðuneytið, sem skipar þá stjórn. Athygli vakti að á aðalfundi Fríhafnarinnar í maí sl. var fjölgað í stjórninni, úr þremur aðalmönnum í fimm. Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrv. þingmaður Samfylkingarinnar, vék þá sem stjórnarformaður og Þórólfur Árnason tók sæti hennar.

Aðrir í stjórn eru Ólafur Thordersen, Arnbjörg Sveinsdóttir, Bergur Sigurðsson og Jónína Holm. Þessir stjórnarmenn fá greiddar 67 þús.kr. fyrir hvern mánuð en stjórnarformaður fær tvöfalda þá upphæð. Varamenn fá 25 þús.kr. fyrir hvern setinn fund. Líkt og í Isavia fá stjórnarmenn ekki greiddar aðrar þóknanir en stjórnarlaun.