Arion banki hyggst koma til móts við þá einstaklinga sem sjá fram á erfiðleika við að standa skil á afborgunum íbúðalána vegna Covid-19.

Býður bankinn þessum einstaklingum að gera hlé á afborgunum lánanna í allt að þrjá mánuði til að auðvelda þeim að takast á við fyrirsjáanlegar áskoranir. Ef þörf er á frekari sveigjanleika er farið yfir málin með hverjum og einum viðskiptavini segir bankinn í fréttatilkynningu.

Ríkisstjórnin hefur boðað lausafjárfyrirgreiðslu til bankanna , og aðrar aðgerðir, til að mynda frestun á skattgreiðslum , til fyrirtækja vegna ástandsins, einmitt svo þeir geti gripið til slíkra aðgerða.

Aðalhagfræðingur Arion banka segir þó áhyggjuefni hve stutt þessar aðgerðir ríkisins eru komnar á veg , en aðalhagfræðingur Íslandsbanka telur að hér sé einungis um fyrstu skrefin að ræða og frekari aðgerðir séu í undirbúningi.

Umræða hefur orðið um viðbrögðin á Alþingi , þar sem þingmenn hafa bent á nauðsyn þess að aðgerðirnar séu skýrar og afgerandi, því annas sé hætta á öfgakenndum viðbrögðum atvinnurekenda.