Nýjasti tölvuleikur CCP, farsímaleikurinn EVE Echoes, var gefinn út í Kína þann 5. ágúst síðastliðinn. Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn fagnar viðtökum á stærsta tölvuleikjamarkaði heims en ein milljón manns spiluðu leikinn á útgáfudeginum í Kína og alls hafa þrjár milljónir manns spilað leikinn á síðustu þremur vikum.

Leikurinn fór beint á toppinn á kínverska Apple App Store yfir vinsælustu farsímaleikina og fékk í kjölfarið gott pláss í netversluninni.

Alls hafa nú átta milljónir spilara víðs vegar um heim skráð sig til leiks og spilað EVE Echoes frá því leikurinn kom fyrst út þann 13. ágúst 2020. Útgáfan í Kína kemur því upp á sama tíma og leikurinn fagnar eins árs afmæli sínu.

„Með útgáfu EVE Echoes í Kína erum við hjá CCP að stíga stór skref á farsímamarkaðinum og efla gott samstarf okkar við NetEase sem hafa víðamikla þekkingu og reynslu af leikjaútgáfu í Kína,“ segir Eyrún Jónsdóttir , framkvæmdastjóri leikjaútgáfu hjá CCP, í fréttatilkynningu.

„Þessi góði árangur við útgáfu EVE Echoes í Kína má ekki síst þakka öflugri markaðs- og þróunarvinnu sem bæði starfsfólk okkar á skrifstofu CCP í Shanghai og hjá NetEase hefur lagt í að betrumbæta og kynna EVE Echoes frá því leikurinn kom fyrst út fyrir ári síðan."

EVE Echoes er farsímaleikur sem byggir á vinsælum leikjaheim EVE Online sem spilaður er á PC/Mac tölvum. Viðskiptamódel leiksins er svokallað ‘Free-to-play’ módel þar sem hægt er að spila frítt en boðið er upp á áskriftarleiðir, uppfærslur og stafrænan varning til þeirra sem vilja auka við upplifun sína við spilun leiksins. CCP gefur EVE Echoes út í samvinnu við NetEase, eitt stærsta net- og tölvuleikjafyrirtæki í heimi.

CCP var selt til suður-kóreska fyrirtækisins Pearl Abyss árið 2018. Viðskiptablaðið sagði frá því fyrr í ár að endanlegt kaupverð hafi numið 225 milljónum dala, eða um 29 milljörðum króna.