Mikil gróska er í hrossarækt á Íslandi en félagið Hestafl starfar að hestarækt og hestatamningum en félagið er starfrækt á Vestri-Leirárgörðum. Að félaginu standa þau Marteinn Njálsson og kona hans, Dóra Líndal, auk dóttur þeirra, Karenar Líndal Marteinsdóttur.

„Fyrirtækið starfar í hrossarækt en í því felst t.d. heyöflun, girðingar og allt sem tilheyrir ræktuninni. Helsti tilgangurinn er þó að rækta, temja og selja hrossin, bæði keppnishesta og kynbótagripi. Það er komið þónokkuð af þekktum hrossum frá okkur og þekktastur þeirra er Narri frá Vestri-Leirárgörðum,“ segir Marteinn í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við frumtemjum þá hér heima og skoðum hvort þeir séu nægilega efnilegir til að flytja þá út. Dóttir mín, sem er einn af eigendum Hestafls, er reiðkennari og mikil keppnismanneskja. Hún er núna úti í Danmörku að þjálfa og selja hestana frá okkur. Við höfum undanfarið verið að herða mjög valið til að eyða ekki tíma og vinnu í eitthvað sem við teljum ekki vera efnilegt. Núna koma svona fimm folöld á ári, en svo dettur alltaf eitthvað úr þeim hópi. Það eru kannski þrjú folöld af fimm sem eru síðan nothæf.“

Marteinn segir að hægt sé að meta folöld mjög ung og vita hvort þau séu efnileg. Við og við komi þó alltaf til folöld þar sem meira býr í heldur en sést við fyrstu skoðun. Oftast nær er þó hægt að sjá það á fyrsta vetri.

Ekki bara skrokkurinn sem skiptir máli

„Að byggja upp keppnishest eftir að hann hefur verið frumtaminn og er orðinn vel reiðfær tekur kannski þrjú ár. Þegar þeir eru orðnir um sjö til átta vetra þá eru þeir búnir að læra nógu mikið til að hægt sé að ætla að þeir séu komnir í sitt besta form, en það fer eftir því hvað hesturinn er fljótur að tileinka sér kennsluna og hvað hann er bráðþroska. Það er líka ekki bara skrokkurinn sem skiptir máli heldur er það heilabúið í hestinum sem þarf að vinna með. Geðslag hestsins hefur mikið að segja um hversu fljótur hesturinn er að tileinka sér hlutina sem knapinn er að fara fram á að hann geri," segir Marteinn.

„Í stórum dráttum vill hesturinn alltaf fá frið frá knapanum, aðalmálið er að knapinn áreiti hestinn og hann bregst rétt við þá þarf að umbuna honum á réttum tíma. Hesturinn þarf að stimpla þetta inn í sig.“