Áætlað er að 2.500 til 3.000 leiguíbúðir far í uppbyggingu í Reykjavík á næstu þremur til fimm árum. Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur, á kynningarfundi í Ráðhúsinu í morgun.

Þar kynnti borgarstjórinn hugmyndir um ný uppbyggingarsvæði og sagði það vera markmið Reykjavíkurborgar að á þeim svæðum yrði að minnsta kosti 25% leiguhúsnæði, hvort heldur sem væri á almennum leigumarkaði eða sem búseturéttarhúsnæði. Í framtíðaráherslum borgarinnar er einnig gert ráð fyrir að Félagsbústaðir eigi kauprétt á allt að 5% íbúða fyrir félagslegar leiguíbúðir til þess að tryggja góða félagslega blöndun í öllum hverfum.

Dagur sagði að nýta þyrfti bæði land og innviði borgarinnar sem best og kynnti samningsmarkmið borgarinnar varðandi ný uppbyggingarsvæði þar sem gert er ráð fyrir að stofnkostnaður innviða fyrir uppbyggingarsvæðið verði borinn af uppbyggingunni. Þá er gert ráð fyrir að 1% af stofnkostnaði nýrra uppbyggingarsvæða verði varið til listar í almenningsrými.