Uppgjör Eimskips var í samræmi við spár greiningaraðila. Innflutningur á vörum til landsins dróst saman um 1,2% í magni á milli ára á öðrum ársfjórðungi á meðan útflutningur dróst saman um 7% í magni og 7,6% í virði.

Hinsvegar kom fram í uppgjöri Eimskips að flutningsmagn í áætlunarsiglingum á N-Atlantshafi hefði aukist um 7,1% frá öðrum ársfjórðungi 2013. Rekstrartekjur breyttust þó lítið og voru 109 milljónir evra í samanburði við 108,1 milljón á sama tíma í fyrra. Hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 4,6 milljónum evra eða 700 milljónum króna. Þetta er mikil aukning milli ára þar sem hagnaður á sama tímabili í fyrra nam tveimur milljónum evra. Greiningardeild Arion banka segir að skýringin á því að þessi vöxtur í flutningsmagni sé ekki að skila sér í tekjum sé styttri vegalengd á bak við hverja flutningseiningu að meðaltali. Kristján Markús Bragason hjá Greiningu Íslandsbanka segir uppgjörið vera prýðilegt og aukið flutningsmagn mikilvægt. „Mikilvægi þess að aukning næst fram í fluttu magni er sérstaklega mikil til að ná fram betri nýtingu á föstum kostnaði félagsins sem hefur verið ófullnægjandi. Þótt einhver óveruleg hækkun yrði í tekjum félagsins á 2. ársfjórðungi, þá var töluvert betri niðurstaða af rekstrarhagnaði félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta. Sú breyting var mikilvæg.“

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, hefur sagt að flutningageta fyrirtækisins sé vannýtt til landsins. Byggingariðnaðurinn gæti haft áhrif til góðs á afkomu félagsins, því meðalíbúð þýði um tvo gáma í innflutningi.

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 11. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .