Hátt í þúsund manns lögðu leið sína í Hörpu í dag til að hlusta á Alexander Osterwalder, metsöluhöfund bókarinnar Business Model Generation.  Í fyrirlestrinum sagði Osterwalder frá nýrri aðferð sinni, Business Model Canvas , sem vakið hefur mikla athygli um allan heim. Aðferðin snýst um að þróa og móta viðskiptamódel innan fyrirtækja með einföldum hætti.

Í tilkynningu frá Arion banka segir að stórfyrirtæki á borð við Ericsson og GE hafi nýtt sér aðferðafræði Osterwalder með góðum árangri. Þá hafa líka mörg íslensk fyrirtæki, auk þátttakenda í nýsköpunarsmiðjunni Startup Reykjavík, nýtt sér aðferðina.

Osterwalder kom inn á mikilvægi þess að notuð séu réttu verkfærin þegar viðskiptamódel eru útfærð, hvort sem um er að ræða viðskiptamódel innan sprotafyrirtækja eða rótgróinna fyritækja. Þá sagði hann mikilvægt að tileinka sér hugarfar og nálgun hönnuða sem og finna leiðir til að prófa viðskiptamódelið áður en lagt er af stað. Osterwalder fullyrti að hefðbundnar viðskiptaáætlanir séu alls ekki vænlegar til árangurs hjá sprotafyrirtækjum þar sem óvissa er mikil, þær eigi aðeins við í umhverfi sem er vel þekkt.

Þá lagði hann ríka áherslu á að viðskiptahugmyndir þurfi stöðugt að vera í endurskoðun og að við slíka endurskoðun nýtist aðferðafræði Business Model Canvas vel. Þannig þurfa fyrirtæki sem ætla sér að ná árangri til lengri tíma sífellt að leita leiða til að uppfæra og endurmeta viðskiptamódel sitt til að verða ekki undir í samkeppni.

© Aðsend mynd (AÐSEND)