TM og VÍS koma inn í stað Össurar í endurskoðaðri samsetningu á hlutabréfavísitölu Gamma. Vísitalan er endurskoðuð fjórum sinnum á ári eða við lok hvers ársfjórðungs. Fram kemur á vef Gamma að þetta er fyrsta endurskoðun vísitölunnar síðan dagleg birting á henni hófst í maí. Vísitalan er jafnframt bakreiknuð aftur til ársins 2008. Félög innan vísitölunnar eru vegin eftir flotleiðréttu markaðsvirði. Vísitalan hefur hækkað um 14,9% það sem af er ári.

Endurskoðuð fyrirtækjasamsetning tekur gildi þann 1. júlí 2013, og mun vísitalan þá innihalda eftirfarandi átta félög. Auk TM og VÍS eru í henni Eimskip, Fjarskipti (Vodafone) Hagar, Icelandair Group, Marel og Reginn.

Þá segir Gamma að hlutabréfavísitalan miðist við það að gefa sem besta mynd af íslenska hlutabréfamarkaðinum og innihaldi hún átta af þeim tíu fyrirtækjum sem skráð eru á Aðallista. Einungis Össur og Nýherji eru ekki með en val í vísitöluna fer fram með því að raða fyrirtækjum upp eftir veltu á markaði og eru síðan veltuhæstu fyrirtækin valin í vísitöluna þar til 90% af flotleiðréttu markaðsvirði heildarmarkaðar er náð. Þess má geta að Hlutabréfavísitala GAMMA inniheldur sömu fyrirtæki og Úrvalsvísitala Kauphallarinnar að viðbættum Reginn og Fjarskiptum (Vodafone).