Það vakti óneitanlega athygli þegar herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gagnrýndi Ríkisútvarpið harðlega í útvarpsviðtali á dögunum, og sagði það hafa hyglað Þóru Arnórsdóttur, meðframbjóðanda sínum og starfsmanni Ríkissjónvarpsins. En er það rétt athugað að RÚV hafi fjallað óeðlilega mikið um þennan starfsmann sinn? Tölfræðin leiðir ekkert slíkt í ljós, öðru nær, forsetinn hefur nokkurt forskot á alla aðra frambjóðendur.

Það segir auðvitað ekkert um efni fréttanna, en færa má rök fyrir því að tölfræðin sé jafnari en efni standa til, því að í flestum fréttum Ríkisútvarpsins af einstökum forsetaframbjóðendum eru hinir frambjóðendurnir einnig taldir upp. Á hinn bóginn hefur forsetinn fengið allnokkrar fréttir „út af fyrir sig“, enda hafa þær ekki snúist um framboðsmál. Ástþór Magnússon er aftur sá eini hinna, sem RÚV segir frétt af, sem ekki snýst um framboð eða kannanir. Um hvað var hún? Jú, það var auðvitað frétt um að Ástþór kvartaði undan mismunun í fréttaflutningi!