*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 23. september 2019 15:08

Trump íhugar fríverslun við Ísland

Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru sögð skoða fríverslunarviðræður við Ísland í ljósi átaka við Kína og ESB og áhuga á Grænlandi.

Ritstjórn
Donald Trump forseti Bandaríkjanna ásamt syni sínum og nafna og Mike Pence, varaforseta í kosningabaráttu þeirra félaga fyrir forsetaembættinu.
epa

Ríkisstjórn Donald Trump forseta Bandaríkjanna horfir til þess að gera fríverslunarsamning við Ísland í tengslum við viðskiptastríð sitt við Kína og aukinn núning við Evrópusambandið að því er Axios frétta- og upplýsingasíðan hefur eftir embættismönnum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum kom Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna í stutta heimsókn til Íslands milli heimsókna til Írlands og Bretlands.

Í þeirri heimsókn fór Guðlaugur Þór Þórðarson fram á að gerður yrði fríverslunarsamningur á milli landanna sem Pence hvorki gaf vilyrði fyrir né neitaði en talaði alla vega um að dýpka samstarf ríkjanna á ýmsum sviðum og gera sérstaka sérsamninga um ákveðna hluti.

Ísland er sagt hafa lítið að bjóða Bandaríkjunum í mögulegum fríverslunarsamningi í fjármálalegu tilliti en staðsetning Íslands á norðurslóðum sé hins vegar mikilvæg. Þannig hafi þjóðaröryggisráð forsetans lagt áherslu á að fjárfesta á svæðinu, samhliða því sem Trump hefur viðrað áhuga á að kaupa Grænland eins og sagt var frá á dögunum, stjórnvöldum í Danmörku til mikillar furðu.

Ákvörðun um gerð fríverslunarsamnings við Ísland er líka gerð í samhengi við hugmyndir Kínverja um að koma landinu inn í Belti og Braut samstarfið sem felur í sér fjárfestingar og uppbyggingu samgöngumannvirkja og viðskipta víða um heim. Jafnframt er það sett í samhengi við aukinn umsvif Rússa á heimskautasvæðinu.

„Þetta snýst um þjóðaröryggismál á svæðinu - að gera viðskiptasamninga og byggja samstarf við okkur frekar en Kína eða Rússland,“ er haft eftir einum embættismanni.

Öldungadeildarþingmaðurinn John Kennedy er jafnframt hafa lagt áherslu á það á hádegisverðarfundi Repúblikanaflokksins með Mike Pence, að gera fríverslunarsamning við Ísland, sem Lisa Murkowski öldungadeildarþingmaður Alaska tók undir.

Varaforsetinn, Pence, svaraði því til að starfshópur að störfum að skoða möguleikann á samningi og hann sé jákvæður gagnvart slíkum hugmyndum. Aðrir öldungadeildarþingmenn sögðu málið hafa komið þeim á óvart þegar það var rætt á fundinum en þeir væru opnir fyrir slíkum viðræðum.