Tryggvi Jónsson endurskoðandi hefur sent frá sér yfirlýsingu um að hann hafi sagt upp störfum hjá Landsbankanum. Yfirlýsingin fer hér á eftir:

„Ég hef í dag sagt upp störfum hjá Landsbankanum (NBI) og hef þegar látið af störfum hjá bankanum.  Ástæðuna má rekja til þess ástands sem skapast hefur í kringum störf mín þar og vona ég að uppsögn mín megi verða til að þess að Landsbankinn fái þann starfsfrið sem hann á skilið.

Umræðan um mig og starf mitt hjá bankanum hefur að mínu mati farið langt yfir öll velsæmismörk og hafa síðustu vikur verið mér og ekki síður fjölskyldu minni, afar erfiðar.  Ég get setið undir ýmsu en þegar mótmæli af þeirri tegund sem sést hafa síðustu daga eru farin að bitna á fjölskyldu minni segi ég hingað og ekki lengra.

Ég vil þakka öllu starfsfólki Landsbankans fyrir gott samstarf, stuðning og góða viðkynningu og vona  að því farnist vel í framtíðinni."