Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi hefur sett notuð húsgögn og ýmis tæki á uppboð á netinu. Rafræna uppboðið hófst í gær og lýkur kl. 22 á sunnudaginn, 15. ágúst. Alls eru 37 munir til sölu, þar á meðal dýnur, skrifstofustólar, lofthreinstæki og örbylgjuofnar.

Sendiráðið flutti nýlega yfir í húsnæði við Engjateig 7, sem það festi kaup á árið 2015. Gamla bandaríska sendiráðið við Laufásveg var auglýst til sölu í maí síðastliðnum. Alls voru fjórar lóðir við Laufásveg 19-23 og Þingholtsstræti 34 sem hýst hafa bæði íbúðarhúsnæði og skrifstofur settar á sölu. Fasteignaráðgjafafyrirtækið Croisetta Real Estate Partners var falið að sjá um söluferlið.