*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 27. maí 2021 15:01

Gjaldið hjá ÍL-sjóði gæti enn fallið

Þrátt fyrir tvo dóma Hæstaréttar í dag er enn útistandandi málsástæða sem gæti orðið ÍL-sjóði og ríkinu að falli.

Jóhann Óli Eiðsson
Aðsend mynd

Ekki er loku fyrir það skotið að uppgreiðslugjald ÍL-sjóðs geti enn verið dæmt ólögmætt. Tveir dómar Hæstaréttar, sem kveðnir voru upp í dag, eyða þeim vafa aðeins að hluta. ÍL-sjóður var sýknaður í öðru málinu en í því síðara var málinu vísað heim í hérað sökum réttarfarsannmarka. Þetta má sjá af lestri forsendna dómsins.

Málin tvö voru höfðuð af lántakendum hjá hinum sáluga Íbúðalánasjóði. Þegar til uppgreiðslu lánanna kom, þegar þau endurfjármögnuðu lánin, var þeim gert að greiða uppgreiðslugjald til sjóðsins. Í öðru tilfellinu hljóðaði það upp á rúmlega 2,7 milljónir króna, rúmlega 10% af eftirstöðvum lánsins, en í síðara málinu nam gjaldið 3,8 milljónum króna eða 15,6% af eftirstöðvum lánsins. Töldu lántakendur gjaldið ólögmætt.

Þótt málin tvö varði áþekk atvik þá er grundvöllur þeirra ekki sá sami í báðum tilfellum. Í síðarnefnda málinu, því sem hlaut númerið 3/2021 í Hæstarétti í dag, var byggt á því að reglugerð, sem veitti heimild til innheimtu gjaldsins, hefði skort lagastoð. Þá var enn fremur byggt á því að umrætt uppgreiðsluákvæði skuldabréfanna hafi verið ólögmætt, ógildanlegt á grunni meginreglna samningaréttarins og að það væri ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju. Skemmst er frá því að segja að ríkið var sýknað í málinu og öllum málsástæðum lántaka hafnað.

Ákvæðið ósamrýmanlegt lögum

Í hinu málinu, því sem fékk númerið 4/2021, var vissulega byggt á ógildingarreglum samningaréttarins en því til viðbótar var byggt á því að skilmálar skuldabréfsins hefðu ekki verið í samræmi við tiltekið ákvæði þágildandi laga um neytendalán sem kveður á um hvernig uppgreiðslugjald skuli reiknað út og hvenær slíkur kostnaður geti fallið til.

Í héraði var fyrst vikið að síðari málsástæðunni og talið að skilmálarnir hafi ekki verið í samræmi við ákvæðið. Í dómi Hæstaréttar nú er sagt að „réttilega [sé] komist að þeirri niðurstöðu“ að téð ákvæði hafi ekki verið í samræmi við ákvæði fyrrgreindra laga.

„Í dóminum er þess á hinn bóginn í engu getið hverju sá ágalli varði eða hvernig hann leiði til þess að fallast beri á kröfur stefndu. […] Þó svo að ágalli á skilmálum af þessu tagi kunni að brjóta í bága við tiltekna lagareglu leiðir slíkt ekki þegar af þeirri ástæðu til þess að viðkomandi ráðstöfun sé ógild milli aðila. Slíkt er þvert á móti athugunarefni hverju sinni og bar héraðsdómi að taka rökstudda afstöðu til þess hvort og þá á hvaða grundvelli umræddur ágalli leiddi til þess að fallist yrði á kröfur stefndu,“ segir í dómi Hæstaréttar. Það hafi hins vegar ekki verið gert heldur látið nægja að segja að rök stæðu til að fallast á kröfu lántakanna þegar af þeim sökum.

Allt að átta milljarðar í húfi

Í dómi Hæstaréttar er að finna frekari gagnrýni á úrlausn héraðsdóms. Til að mynda hafi verið teknar til skoðunar málsástæður sem hvorki hafi verið getið í stefnu né greinargerð ÍL-sjóðs. Þrátt fyrir það hafi sú umfjöllun myndað hryggjarstykkið dóminum.

„Að auki reisir héraðsdómur niðurstöðu sína, þar sem fallist er á kröfur stefndu, á báðum framangreindum málsástæðum án þess að ljóst sé hvort þær báðar þurfi til þeirra málsúrslita eða hvor þeirra um sig geti leitt til þeirrar niðurstöðu sem komist var að í málinu. Verður með vísan til framanritaðs ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Viðbúið er því að síðari atrenna málsins í héraði muni hverfast um téð ákvæði laga um neytendalán, það er 16. gr. a. sem kom inn í lögin árið 2008, enda öðrum málsástæðum verið hafnað í hinum fyrra máli. Þar sem ekki var byggt á ákvæðinu í hinu málinu liggur ekki fyrir dómur um það hvaða áhrif það á að hafa ef skilmálar lánasamningsins eru í andstöðu við lögin.

Ríkir hagsmunir eru beggja megin borðs í málinu. Fyrir liggur það mat ríkisins að lántakar hafi greitt ríflega 5 milljarða króna í uppgreiðsluþóknun og að útistandandi séu lán með mögulegum þremur milljörðum til viðbótar en nýverið lenti ÍL-sjóður af fullum þunga í A-hluta ríkissjóðs. Aftur á móti liggur fyrir í málunum tveimur, sem dómur var kveðinn upp í í dag, að téð ákvæði skilmálanna var ekki samhljóða. Liggur því ekki afdráttarlaust fyrir hvort hluti lántaka Íbúðalánasjóðs gætu sloppið undan gjaldinu en aðrir setið eftir með sárt ennið.