Allir miðarnir á tónleika Justins Timberlake í ágúst eru uppseldir. Þetta voru 16.000 miðar. Fram kemur í tilkynningu frá tónleikahaldaranum að aldrei hafi jafn margir reynt að kaupa á nokkurn atburð áður í einu og hefur álag á tölvukerfi Miða.is aldrei verið meira. Miðasölukerfið hrundi á mínútunni 10:00 vegna álags og komst í gang aftur um kl. 10:30 og allir miðar búnir um kl. 10:45. Til að gefa nokkra hugmynd um hversu mikið mæddi á miðasölukerfinu voru um 59.000 tengingar við Miða.is á einum tímapunkti.

Engir aukatónleikar verða haldnir og verða ekki fleiri miðar settir í sölu.

Fjallað er um tónleika Justins Timberlake í Viðskiptablaðinu í dag. Þar segir m.a. að kostnaðurinn við tónleikahaldið sé um 1,5 milljónir dala eða um 170 milljónir króna. Seljist upp á tónleikana fái Sena ríflega 250 milljónir í tekjur af miðasölunni.

Áskrifendur geta nálgast Viðskiptablaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .