Í aðdraganda Landsmóts, meðan á því stendur og að því loknu myndast mikil viðskipti með íslensk hross. Góður reiðhestur kostar í kringum 500 þúsund krónur.

Verð á kynbótahrossum er hins vegar engan veginn sambærilegt og er í raun á mjög breiðu sviði. Gott kynbótahross kostar þó ekki undir 1-2 milljónum króna og upp úr.

Sigurður Sæmundsson, einvaldur íslenska landsliðsins í hestaíþróttum, segir að hrossaræktun hafi tekið miklum framförum hér á landi undanfarin ár. Gæðin séu jafnari og hærri en áður. Hann segir að það sé stutt undan að 100 milljóna króna hesturinn verði staðreynd.

„Þá erum við að tala um kynbótagrip af svipuðum gæðum og Orri frá Þúfu. Kæmi slíkur gripur fram á sjónarsviðið yrði 100 milljóna króna múrinn yfirstiginn.“

Viðskipti með íslenska hesta nema milljörðum króna á hverju ári. Undanfarin ár hafa verið flutt út að jafnaði um 1.500 hross.

Miðað við að hvert hross seljist á 500 þúsund krónur er heildarverðmæti útflutningsins því um 750 milljónir króna á ári. Hrossum sem seld eru úr landi hefur fækkað en gæði hestanna og verðmæti útflutningsins hins vegar aukist.

Hinrik Bragason, eigandi Hestvits, sem er einn af þremur stærstu útflutningsaðilum íslenska hestsins, segir að landslagið hafi breyst mikið á undanförnum árum í þessum geira.

Mjög hefur dregið úr útflutningi frá því hann var hvað mestur á árunum 1989-1997. Þessi ár voru allt að 3 þúsund hross seld úr landi á ári. Útflutningur í dag er um 1.500 hross en þau eru mun vandaðri og betri söluvara. Þess vegna hefur orðið verðmætaaukning í útflutningnum þrátt fyrir fækkunina. Hann segir gott jafnvægi á markaðnum en eftirspurn eftir góðum hestum sé þó mun meiri en framboð, jafnt innanlands og erlendis.

Þetta hefur valdið umtalsverðum verðhækkunum á góðum hestum. Eins hefur orðið sprenging í iðkendafjölda í keppnisgreinum hestamennskunnar. Þess vegna er skortur á vel tömdum og skóluðum keppnishestum.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt um Landsmótið og hestamenskuna  í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .