Heildarútgjöld til rannsókna- og þróunarstarfs á árinu 2014 voru 37.603 milljónir, en jafngildir það 1,89% af vergri landsframleiðslu þess árs. Er það 7% aukning frá árinu 2013, en þá voru sömu útgjöld 35.189 milljónir, sem jafngilti 1,87% af vergri landsframleiðslu. Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofu Íslands.

Þar kemur fram að Hagstofan hafi nú birt leiðréttar tölur um útgjöld til rannsókna- og þróunarstarfs 2013, samhliða birtingu á niðurstöðum fyrir árið 2014, en verkefnið fluttist yfir til Hagstofunnar árið 2013.

Gagnasöfnunin nær yfir fyrirtæki, háskólastofnanir, aðrar opinberar stofnanir og séreignastofnanir. Skiptast heildarútgjöldin þannig, að útgjöld fyrirtækja eru 21,4 milljarðar, en voru 20,0 milljarðar 2013; útgjöld háskólastofnana eru 13,3 milljarðar, en voru 12,5 milljarðar 2013; og heildarútgjöld  annarra opinberra stofnana og sjálfseignastofnana eru 3,0 milljarðar, en voru 2,8 milljarðar 2013.

Rannsóknir og þróun í þjónustugreinum er 12,8 milljarðar, eða 60,1% af heildarútgjöldum fyrirtækja til R&Þ, en í framleiðslugreinum  6,7 milljarðar, eða 31,5% af heildarútgjöldum fyrirtækja.