Arnór Sighvatsson aðalhagfræðingur Seðlabankans segir að 1,16% hækkun vísitölu neysluverðs komi á óvart nú og að hækkunin hafi verið meiri en Seðlabankinn hafði vonast til.

Hækkunin var yfir væntingum bæði Seðlabankans og spám greiningaraðila, en greiningaraðilar höfðu spáð hækkun á bilinu 0.7 til 0,9%.

Arnór segir að verðbólgan sé nú óásættanlega langt yfir verðbólgumarkmiði bankans en tólf mánaða verðbólga stendur nú í 8% og er þetta 26. mánuðurinn í röð sem verðbólga er yfir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans.

Arnór segir að í kjölfar þess að krónan hafi lækkað hraðar en búist var við undanfarna mánuði muni verðbólguþrýstingur aukast á komandi mánuðum og því sé ljóst að stjórn Seðlabankans bíði nú vandasamt verkefni.

Arnór telur að þrátt fyrir að vaxtahækkanir bankans hafi nú þegar haft áhrif á þróun verðbólgunnar munu áhrif aðgerða Seðlabankans koma betur í ljós á næstu mánuðum enda muni aðhald aukast enn frekar í kjölfar hækkandi verðbólgu.

Arnór segir að sá boðskapur sem Seðlabankinn hefur boðað í Peningamálum og víða um aukið aðhald í peningamálastjórninni kjölfar vaxandi verðbólgu eigi nú meira erindi en áður og mun kalla á viðeigandi aðgerðir Seðlabankans.

Næsti formlegi vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er þann 14. september en peningamál koma út þann 6. júlí og geta útgáfudagar einnig verið vaxtaákvörðunardagar.