*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 26. janúar 2021 10:43

VBM komin í samkeppni við Nasdaq

Ný verðbréfamiðstöð, Verðbréfamiðstöð Íslands, getur nú veitt fulla þjónustu eftir að tengdist Millibankakerfi SÍ.

Ritstjórn

Nýja verðbréfamiðstöðin Verðbréfamiðstöð Íslands („VBM“) hefur tengst nýju Millibankakerfi Seðlabanka Íslands og getur nú veitt fulla þjónustu með uppgjör rafrænna verðbréfa.

Viðskiptablaðið greindi frá því á sínum tíma þegar undirbúningur VBM hófst árið 2015, en félagið er í breiðri eigu íslenskra lífeyrissjóða, bankastofnana og annarra fagfjárfesta. Þar með hafa skapast forsendur fyrir samkeppni á markaði sem hingað til hefur verið einokun á í um 20 ár segir í tilkynningu Verðbréfamiðstöðvarinnar.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá árið 2016 er ætlunin með starfseminni að hefja samkeppni við Nasdaq á Íslandi, en meðal þeirra sem komu að stofnun félagsins eru þeir Einar S. Sigurjónsson, fyrrum framkvæmdastjóri Verðbréfaskráningar íslands, Arnar Arinbjarnarson, fyrrverandi yfirmaður viðskiptaþróunar MP banka, auk lögfræðistofunnar Lagahvols.

Sérstaða VBM er sögð í tilkynningu felast í því að vera að fullu íslenskur valkostur sem starfrækir verðbréfauppgjörskerfi og annast uppgjör viðskipta. Peningalegt uppgjör verðbréfa VBM fer fram í Millibankakerfi Seðlabanka Íslands.

Núverandi þátttakendur verðbréfauppgjörskerfis VBM eru Arion banki, Íslandsbanki og Seðlabanki Íslands sem þar með geta sent inn viðskiptafyrirmæli með rafræn verðbréfa til uppgjörs, auk þess að stofna reikninga fyrir viðskiptavini sína til vörslu rafbréfa.
Verðbréfauppgjörskerfi VBM er jafnframt sagt uppfylla kröfur laga um uppgjör rafrænna verðbréfa.

„Þessi áfangi er mjög ánægjulegur eftir mikinn undirbúning síðustu ára,“ segir Erla Hrönn Aðalgeirsdóttir framkvæmdastjóri Verðbréfamiðstöðvar Íslands.

„Við finnum fyrir mikilli eftirvæntingu útgefenda og fjárfesta á að samkeppni skapist á þessum markaði sem hingað til hefur ríkt einokun. Með okkar samstarfsaðilum getum við veitt fulla þjónustu gagnvart bæði skráðum og óskráðum bréfum.“

Verðbréfamiðstöð Íslands er hlutafélag í eigu innlendra fagfjárfesta m.a. lífeyrissjóða og banka og starfar samkvæmt íslenskum lögum og heyrir undir fjármálaeftirlit á Íslandi.

VBM gegnir hlutverki sem þjónustuaðili útgefenda og fjárfesta sem umsjónaraðili rafbréfa. Við útgáfu rafbréfa í kerfi VBM verður útgefandi aðili að rafrænni miðlun til fjárfesta.

Réttindi eigenda eru varðveitt rafrænt og staðfesting um eignarhald og réttindi liggur því ávallt fyrir. VBM býður útgefendum skráðra og óskráðra verðbréfa upp á samning um útgáfu og þjónustu.