Vegagerðin varði um 980 milljónum króna í vinnu við girðingar meðfram vegum landsins á árunum 2008 til 2012. Þetta kemur fram í svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna. Kostnaður við nýjar girðingar meðfram vegum á þessu fimm ára tímabili var 608 milljónir. Við það bættust síðan 371 milljón sem fór í kostnað við viðhald girðinga.

Á þessu fimm ára tímabili var mestum fjármunum varið í girðingavinnu árið 2008 eða samtals 262 milljónum króna. Minnstu var hins vegar varið árið í fyrra eða 147 milljón. Á þessu ári er einnig gert ráð fyrir um 147 milljónum króna í girðingavinnu við vegi landsins.