Frá áramótum hefur íslenska krónan fallið bæði hratt og mikið gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Bréf íslenskrar kauphallar eru skráð í krónum en félögin fá stóran hluta tekna sinni í erlendri mynt.

Greiningardeild Kaupþings segir að veiking krónunnar gagnvart erlendum myntum þýði að hlutfallslegt vægi erlendra tekna vex í starfsemi félaganna, mælt í krónum, og virði sjóðstreymis félaganna því sömuleiðis, mælt í krónum.

„Á móti kemur að mörg íslensku félaganna búa við ójafnvægi í skuldsetningu að því leyti að tekjuöflun í krónum er skuldsett í erlendri mynt. Þegar miklar sveiflur verða á gengi krónunnar gagnvart öðrum myntum getur slíkt ójafnvægi haft miklar afleiðingar fyrir afkomu félaganna og efnahag hafi þau ekki gripið til varúðarráðstafana til varnar gengissveiflum,“ segir greiningardeildin.

Gengisvísitalan hefur hækkað um 25% frá áramótum og erlendir gjaldmiðlar styrkst sem því nemur. Þessi veiking krónunnar hefur verið misjöfn gagnvart einstökum gjaldmiðlum eða 28% gagnvart evru, 19% gagnvart dollar, 18% gagnvart pundi og 33% gagnvart svissneskum franka.

Aðeins 26% tekna Kauphallarfyrirtækjanna koma frá Íslandi og 74% erlendis frá, að sögn greinignardeildarinnar - sem horfir að vísu framhjá fjárfestingarfélögunum Exista, Atorku og FL Group undanskildum í þessum tölum.

„Þegar félögum í Kauphöllinni er skipt niður í banka annars vegar og rekstrarfélög hins vegar (e. Non-financials) kemur í ljós að tekjur í íslenskum krónum vega mun þyngra í starfsemi íslenskra banka heldur en íslenskra rekstrarfélaga. Hjá íslensku bönkunum eru um 43% tekna frá Íslandi en 57% frá öðrum löndum. Hjá rekstrarfélögunum vegur Ísland í tekjuöflun aðeins um 12% á meðan önnur markaðssvæði vega um 88%,“ segir greiningardeildin.