Fyrstu vikuna í desember var velta á fasteignamarkaði 3,7 milljarðar króna og dróst saman um 13% á milli vikna, sem er minni samdráttur en í síðustu viku nóvember, segir greiningardeild Landsbankans.

?Næstu þrjár vikur þar á undan hafði hins vegar verið talsverð aukning á milli vikna, en miklar sveiflur eru á milli vikna á þessum markaði. Þróunin síðustu vikur er svipuð þegar horft er á fjölda viðskipta, en 138 viðskipti áttu sér stað í síðustu viku,? segir greiningardeildin.

Það hefur orðið viðsnúningur á þróun meðalveltu frá því á síðasta ári. ?Samdráttur hefur verið á milli ára á þennan mælikvarða frá mánaðamótunum maí og júní, en aukning nú. Aukningin er þó ekki mikil, aðeins 3%. Þó að þetta sé vísbending um að jafnvægi sé að komast á á fasteignamarkaði er því ekki ástæða til að draga of víðtækar ályktanir af þessu,? segir greiningardeildin.

Það eru talsverðar sveiflur í veltu yfir fjögra vikna tímabil. Sé litið til síðustu tólf vikna eru sveiflurnar minni. ?Samanburður á tólf vikna veltu á milli ára sýnir að síðustu fjórar vikur hefur samdráttur á milli ára minnkað jafnt og þétt úr 31% í 20%. Áfram er því samdráttur á þennan mælikvarða, en hann fer minnkandi,? segir greiningardeildin.