Verð á ýmsum vörum eru farin að hækka. Talið er að verðhækkanir megi rekja til kjarasamninga, en í aðdraganda þeirra spáði Seðlabanki Íslands að kjarasamningar í anda hárra nafnlaunahækkana myndu hafa slík áhrif.

„Það er ljóst að þeir kjarasamningar sem undirritaðir voru fyrir skömmu fara talsvert út fyrir það svigrúm sem er til launahækkana og því hætt við því að af þeim hljótist áhrif á verðbólguna,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við Fréttablaðið. Hann segir viðbúið að verðhækkanir muni vega á móti launahækkunum og draga úr kaupmætti.

Í samantekt Neytendasamtakanna kemur fram að 17 birgjar hafi hækkað verð hjá sér frá 20. júní síðastliðnum. „Ljóst er að nýgerðir kjarasamningar eru kostnaðarauki fyrir fyrirtækin. Það er þó ekki sjálfgefið að þau þurfi að velta þessum kostnaðarauka út í verðlagið. Þess í stað beina Neytendasamtökin því til fyrirtækja að þau leiti leiða til að hagræða sem mest svo ekki þurfi að koma til frekari hækkana á verðlagi," segir á vefsíðu samtakanna.

„Menn eru að bera fyrir sig kjarasamninga og það var svo sem fyrirséð og spáð að kjarasamningarnir myndu hafa áhrif á vöruverð. Einnig höfum við verið að sjá skýringar á borð við hækkun flutningskostnaðar og hækkun rafmagnsverðs sem mögulega skýringu,“ segir Þuríður Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna í samtali við Fréttablaðið.