Landsbankinn spáir 3,0% verðbólgu í september, samkvæmt nýrri Hagsjá hagfræðideildar bankans, en Hagstofan birtir mælingu sína fyrir mánuðinn þann 27. september næstkomandi. Býst bankinn við að verðvísitalan hækki um 0,1%, en gangi hún eftir lækkar 12 mánaða verðvísitalan, það er verðbólgan úr 3,2% í 3,0%.

Jafnframt spáir bankinn því að í október verði 0,2% hækkun í október milli mánaða sem þýði 2,6% ársverðbólgu, engri hækkun í nóvember sem þýði 2,4% ársverðbólgu og loks að í desember hækki hún um 0,5% milli mánaða svo verðbólgan fyrir árið 2019 verði 2,1%.

Þar sem um hlaupandi 12 mánaða útreikninga hefur þar mikil áhrif að í október og desember detta út úr verðbólgutölunum miklir verðbólguhækkunarmánuðir á síðasta ári en þá hækkaði vísitalan um 0,57% í október og 0,74% í desember, milli mánaða.

Flugferðir og eldsneyti lækka

Helstu þættir sem lækka nú með haustinu eru, eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær , lækkun flugfargjalda til útlanda, en einnig sýnir verðkönnun bankans að verð á eldsneyti hafi lækkaði milli mánaða.

Hins vegar hækka bæði tómstundir og menning í september, þá vegna útsöluloka á raftækjum og hækkana á ýmis konar námskeiðum og íþróttum á nýju skólaári, og jafnframt hækka föt og skór í verði. Hagfræðideildin bendir á að vissulega séu margir óvissuliðir sem gætu breytt þessum spám.

Þannig geti verð á flugfargjöldum til útlanda breyst frá spám, sérstaklega vegna mæliskekkju við brotthvarf Wow, sem og húsnæðisverð sem þeir spá að verði áfram í kyrrstöðu næstu mánuði, þróun launa gæti orðið önnur, en ekki sjást merki um almennt launaskrið nú, einnig staða fyrirtækja sem ættu að geta haldið verðhækkunum í hóf í kjölfar lækkaðra vaxta og loks gengi krónunnar sem veiktist í kringum ágústmánuð þó veikingin hafi gengið til baka.