*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Frjáls verslun 17. júní 2021 19:01

Verði áfram „risasmátt" félag

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, ræðir eiginleika viðskiptalíkans félagsins í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.

Andrea Sigurðardóttir
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka.
Eyþór Árnason

„Tækifæri Kviku til þess að halda áfram að vaxa og dafna felast helst í þremur vaxtarsprotum, það er í fjártækni, áframhaldandi öflugri eignastýringu og starfsemi okkar á erlendri grundu. Þetta eru allt spennandi tækifæri en lykillinn að árangri felst í skipulagi okkar og viðskiptalíkani," segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka.

„Við höfum verið lítið félag með tilheyrandi kostum og göllum. Við höfum stækkað verulega eftir samrunann við TM en ég legg áherslu á að þrátt fyrir það verði félagið „risasmátt" félag. Stórt, en samt með ákveðna eiginleika smárra félaga, til dæmis dreifstýringu. Það er að mismunandi viðskiptaeiningar, hvort sem það eru dótturfélög eða einstaka einingar innan félagsins, séu mjög sjálfstæðar þannig að hægt sé að taka ákvarðanir nálægt því sem þær varða."

Marinó óttast að um leið og starfsemin verði miðstýrð breytist félagið í stofnun. „Ég held að við yrðum léleg stofnun og að okkur myndi ekki ganga vel í samkeppninni sem stofnun. Það er því mjög mikilvægt að gæta vel að dreifstýringu í ákvörðunartöku að mínu mati."

Mikil samlegð af Lykli

Sameiningar Kviku í gegnum tíðina hafa oftast snúist um kostnaðarhagræðingu, að sögn Marinós, ekki síst vegna þess hve fyrirsjáanleg og mælanleg hún er.

„Þetta átti við um sameiningar margra eignastýringarfélaganna, tekjurnar héldust nokkurn veginn óbreyttar, eða uxu jafnvel, á meðan kostnaður lækkaði mjög mikið. Það var eins þegar við hófum að ræða samrunann við TM, til að byrja með ræddum við hvað við töldum okkur geta sparað mikið. Við mátum það strax í upphafi að kostnaðarhagræðing gæti orðið um einn milljarður á ári."

Til að setja það í samhengi, bendir Marinó á að afkoma hvors félags fyrir sig hafi verið á bilinu 2,5 til 3 milljarðar í eðlilegu árferði á þeim tíma, samtals um 5 til 6 milljarðar. „Sparnaður upp á milljarð var því gríðarlega mikill. Eftir að hafa greint þetta betur hækkuðum við áætlaða kostnaðarsamlegð upp í 1.200 til 1.500 milljónir."

Marinó segir að þegar TM keypti Lykil árið 2019 hafi Kvika líka haft áhuga á Lykli og einnig boðið í félagið, enda sé náttúruleg samlegð í því að sameina banka og lánafélag. Seljendur tóku hins vegar tilboði TM.

„Einhver hefði getað spurt hvers vegna við buðum ekki betur en TM í Lykil í ljósi þessa, en viðskiptalíkanið var takmarkandi þáttur á þeim tíma. Til þess að banki geti lánað peninga þá þarf hann, í mjög einfaldaðri mynd, bæði eigið fé og lausafé. Hvort sem bankinn hefur takmarkaðri aðgang að, mun stýra því sem bankinn getur gert og verður eins konar flöskuháls starfseminnar. Þegar við buðum í Lykil var flöskuhálsinn frekar aðgengi að lausafé, sem skipti máli við fjármögnunina á Lykli. Þetta var áður en við fórum af stað með Auði með þeirri breytingu á innlánastöðu bankans sem henni fylgdi. Samlegðin hefði því verið minni á þessum tíma vegna þess að Lykill var fjármagnaður á markaði og við sáum fram á að þurfa að halda því áfram, allavega til að byrja með."

Fjármögnun Kviku breyttist síðar mikið þannig að það losnaði um flöskuhálsinn vegna lausafjárhlutans. Sú breyting, ásamt því að TM fjármagnaði Lykil áfram á markaði, leiddi til þess að félagið sá tækifæri í mögulegum samruna við tryggingafélagið.

Nánar er rætt við Marinó í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom nýlega út. Hægt er að skrá sig í áskrift hér