Eitt af því sem veldur fólki áhyggjum þegar það hugsar um framtíðina er það hvort tölvur og tæknin muni koma til með að leysa það af hólmi. Hvort mannshöndin verði nánast óþörf og erfitt verði að útvega sér starf. Tölvurnar eru víða í lífi okkar nú þegar, í vinnunni, í símanum, bílnum og svo mætti lengi telja. Það er þess vegna kaldhæðnislegt að vita til þess að eitt sinn vísaði orðið tölva þ.e enska orðið computer ekki til véla, heldur fólks. Tölvur voru fagstétt fólks sem hafði það að atvinnu að reikna á blaði, fyrir komu tölvunnar eins og við þekkjum hana í dag.

Þetta er ekki eina stéttin sem hefur orðið tækninni að bráð heldur mætti einnig nefna þá stétt sem vann á símaskiptiborðum eða ef litið er lengra aftur í tímann, þá sem kveikti í olíuljósastaurum á kvöldin. Á hinn bóginn hafa einnig orðið til ný störf. Fyrir aðeins örfáum árum vann enginn við hönnun snjallforrita eða sem samfélagsmiðlastjóri fyrirtækja. Það voru heldur engar Snapchat stjörnur. Eftir stendur þó spurningin: þarf að óttast tæknina með tilliti til starfamissis?

Störfin breytast frekar en að hverfa

Svarið er já og nei. Í skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins er því spáð að milli áranna 2016-2020 verði 7,1 milljón störf óþörf en aðeins 2 milljónir nýrra starfa verði til, sem bendir ekki til spennandi framtíðar. Aftur á móti horfir McKinsey lengra fram í tímann eða allt til ársins 2030 í skýrslu sem gefin var út í lok síðasta árs. Þar kemur fram að um helmingur þeirra verkefna sem leyst eru af hendi af vinnandi fólki í dag megi sjálfvirknivæða með tækni sem nú þegar hefur verið fundin upp. Hins vegar sé aðeins hægt að sjálfvirknivæða um 5% starfa að fullu. En að um 60% starfa geti orðið 30% sjálfvirk. Þannig telja McKinsey að mun fleiri störf muni breytast heldur en tapast.

Þessi sjónarmið McKinsey má segja að sé endurtekning á niðurstöðum rannsókna í Oxford háskóla frá árinu 2013 sem bentu einnig til þess að líklegra væri að störf myndu breytast en tapast. Enn fremur hefur verið bent á að áhrif tækninnar á vinnumarkaðinn verði ólík bæði eftir geirum og einnig eftir heimshlutum. Þannig er talið líklegt að störf bókhaldara, símasölumanna og bókasafnsfræðinga auk annarra starfa sem fela í sér fyrirsjáanlegar og endurteknar hreyfingar muni verða sjálfvirknivædd að fullu. Aftur móti er talið mjög ólíklegt að hægt verði að sjálfvæða ýmis störf í heilbrigðis- og félagskerfum og að tækni- og sérfræðistörfum muni fjölga. McKinsey bendir jafn framt á að allt að 375 milljónir manns muni þurfa að skipta um starfsstétt á heimsvísu til ársins 2030 og að megninu til muni þær breytingar eiga sér stað í þróuðum ríkjum.

Nánar er fjallað um málið í Fjórðu iðnbyltingunni, nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar og Viðskiptablaðsins. Hægt er að óska eftir áskrift að Frjálsri verslun með því að senda tölvupóst á netfangið: [email protected].