„Markmið okkar er að vera leiðandi streymisþjónusta á Norðurlöndunum og við getum ekki náð því markmiði ef við erum ekki með starfsemi á öllum fimm Norðurlöndunum. Íslenski markaðurinn er sá fimmti og síðasti í röðinni hjá okkur á svæðinu og við teljum Ísland stragetísktlega séð vera mikilvægt svæði fyrir okkur, enda viljum við framleiða sjónvarpsefni fyrir hvert og eitt markaðssvæði á Norðurlöndunum," segir Anders Jensen, forseti og forstjóri Nordic Entertainment Group (NENT), en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun, er norræna streymisveitan Viaplay væntanleg til Íslands þann 1. apríl næstkomandi. Umrædd streymisveita er dótturfélag NENT.

„Sjónvarpsefni frá einu af Norðurlöndunum nýtur oft mikilla vinsælda hjá hinum Norðurlöndunum og því felast mikil tækifæri í því fyrir okkur að bjóða upp á samnorrænan vettvang af afþreyingarefni. Auk þess bjóðum við upp á mikið úrval af íþróttaefni og með því að bjóða þjónustu okkar á Íslandi fáum við aðgang að nýjum hópi mögulegra áskrifenda," bætir Anders við.

Stefna á frekari útbreiðslu

En hyggur streymisveitan á frekari landvinninga, þá jafnvel á meginlandi Evrópu?

„Norðurlöndin eru okkar kjarnasvæði en við erum þó fyrirtæki sem vill vera í stöðugum vexti. Við höfum áform um að herja inn á fleiri markaði í Evrópu, en ég get þó ekki sagt til um hvaða land verði næst í röðinni vegna ástandsins í heiminum í dag. Við erum, líkt og stór fyrirtæki á borð við Netflix og Spotify, að bjóða upp á afþreyingarvettvang (e. platform) sem auðvelt er að skala upp með tiltölulega litlum tilkostnaði. Við þurfum auðvitað að hafa í huga að mest að efninu sem er inni á Viaplay er norrænt og því er mikilvægt að landið sem við viljum næst bjóða þjónustu okkar innan sé móttækilegt fyrir slíku efni," segir Anders.

Í baráttu við Sýn og Símann um vinsælt íþróttaefni?

Allt frá því að áform Viaplay um að bjóða þjónustu sína á Íslandi komust í umræðuna hér á landi, hafa menn reiknað með að streymisveitan muni blanda sér í baráttuna um sjónvarpsrétti á vinsælu íþróttaefni á borð við ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu og Meistaradeild Evrópu í sömu íþrótt. NENT hefur þegar tryggt sér sýningarréttinn á ensku úrvalsdeildinni í hinum Norðurlöndunum, þ.e. Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, frá árinu 2022 til 2028. Þá hefur fyrirtækið þegar yfir að ráða sýningarréttinum á deildinni vinsælu til ársins 2022 í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.

Íslensku fyrirtækin Síminn og Sýn eru þegar í baráttu um umrædda rétti. Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri sölu hjá Símanum, greindi m.a. frá því í viðtali við hlaðvarp ViðskiptaMoggans, ViðskiptaPúls, að hann væri 100% viss um að Viaplay muni bjóða í sýningarréttinn á þessu vinsæla íþróttaefni.

Anders vill ekki tjá sig um hvort Viaplay ætli að freista þess að tryggja sér sýningarréttinn á umræddu íþróttaefni.

„Við viljum einungis tjá okkur um þá sjónvarpsrétti sem við höfum þegar tryggt okkur. Við munum strax frá upphafi bjóða Íslendingum upp á gott úrval af íþróttaefni. Svo í framtíðinni er aldrei að vita nema við aukum úrvalið en frekar," segir Anders.

NENT samsteypan hefur þegar tryggt sér einkaleyfi hér á landi á sýningarrétti eftirtalinna íþrótta: Formúlu 1, þýsku atvinnudeildanna í fótbolta og handbolta, WTA tennis, Major League hafnabolta, NASCAR, hollensku úrvalsdeildarinnar, dönsku deildarinnar, sænsku Allsvenskan, frönsku úrvalsdeildar kvenna í fótbolta, frönsku bikardeildarinnar í fótbolta, CONCACAF þjóðakeppninnar, Suður-ameríska bikarsins 2021, auk margs fleira.

Meirihluta þessara viðburða hefur þó verið frestað sem stendur vegna kórónuveiru-heimsfaraldursins. NENT samsteypan mun því bjóða upp á Viaplay íþróttapakkann á Íslandi þegar þessir viðburðir verða aðgengilegir á ný.

Spurður um hvað aðgangur að íþróttaefninu muni kosta, er íþróttirnar fara að rúlla af stað á ný, kveðst Anders ekki vilja gefa upp verðið að svo stöddu en segir að íþróttaefnið verði aðgengilegt fyrir hagkvæmt verð.

Útilokar ekki frekara samstarf

Viaplay hefur í mörg skipti verið meðframleiðendur ásamt fleiri fyrirtækjum í afþreyingargeiranum. Í því samhengi má nefna að Viaplay var einn af framleiðendum sjónvarpsþáttaraðarinnar vinsælu Stellu Blómkvist, sem frumsýnd var á Sjónvarpi Símans árið 2017, ásamt Símanum og fleiri aðilum. Anders útilokar ekki að Viaplay muni taka þátt í slíku samstarfsverkefni á ný hér á landi. Þá segir hann miklar líkur á að Viaplay muni ráðast í framleiðslu á eigin íslensku sjónvarpsefni.

„Við höfum þegar framleitt um 80 þáttaraðir af eigin efni fyrir Viaplay streymisveituna og er markmið okkar að framleiða um 30-40 þáttaraðir af eigin efni á ári hverju. Stella Blómkvist var fyrsta íslenska verkefnið sem við komum að en svo sannarlega ekki það síðasta. Við erum mjög opin fyrir öllu samstarfi. Það getur oft verið allra hagur að vinna sum verkefni í sameiningu og þannig gefið hæfileikaríku fólki á Norðurlöndunum tækifæri á að koma verkefnum sínum á framfæri til mikils fjölda áhorfenda á svæðinu.

Við kjósum stundum að framleiða afþreyingarefni upp á eigin spýtur, en í flestum tilfellum framleiðum við efnið í samstarfi við aðra aðila og þá yfirleitt fyrirtæki sem eru ekki með starfsemi á Norðurlöndunum. Þá á það fyrirtæki sjónvarpsréttinn á efninu í heimalandi sínu og jafnvel fleiri löndum utan Norðurlandanna. Það er sjaldgæft að við vinnum verkefni með öðrum norrænum fyrirtækjum. Við vorum ekki farin að bjóða upp á Viaplay á Íslandi þegar Stella Blómkvist verkefnið var í gangi, en við útilokum þó ekki samstarf við íslensk fyrirtæki við gerð sjónvarpsefnis," segir Anders.

Áhorf aukist verulega vegna kórónuveiru

Hinn illvígi alheimsfaraldur, kórónuveiran, hefur orðið til þess að fólk eyðir mun meiri tíma heima hjá sér en í eðlilegu árferði. Greint hefur verið frá áhyggjum manna af því að heilu internetkerfin gefi sig vegna aukins álags sem ástandið hefur á nettengingar, enda margir farnir að vinna að heiman auk þess sem gott er að stytta sér stundir yfir sjónvarpsglápi í gegnum streymisveitur í inniverunni. Anders segir að mikil aukning hafi orðið í Viaplay áhorfi undanfarið sökum ástandsins.

„Áhorfstölur Viaplay hafa aukist verulega undanfarið. Áskriftarsala að streymisveitunni hafði gengið mjög vel áður en kórónuveiran lét á sér kræla og hefur salan aukist enn meira í kjölfar útbreiðslu veirunnar. Streymisveitur leika lykilhlutverk í baráttu fólks gegn því að leiðast á þessari miklu viðveru á heimili sínu, líkt og er staðan nú á þessum erfiðu tímum. Aftur á móti hefur veiran gert okkar fyrirtæki, líkt og flestum öðrum, erfitt fyrir. Við rekum nokkrar sjónvarpsstöðvar og á tímum sem þessum á auglýsingasala verulega undir högg að sækja. Ég hef fulla trú á að fyrirtækið muni standa af sér þennan storm og verða enn sterkara fyrir vikið. Maður hefur mestar áhyggjur af áhrifum veirunnar á samfélagið í heild sinni."