Óhætt er að segja að hlutabréfagengi Solid Clouds sé afar sveiflukennt þessa dagana. Félagið hækkaði um 37,5% á First North markaðinum í dag. Vert er þó að hafa í huga að mjög lítil velta einkennir bréfin en velta í dag var um 2 milljónir króna og hefur það verið með svipuðu móti undanfarna daga. Bréfin eru því komin upp í 11 krónur en þau voru 8 krónur í gær.

Á aðalmarkaði kauphallarinnar ber helst að nefna að Icelandair lækkaði um 2,5% í dag og standa bréf félagsins nú í 1,54 krónum. Brim lækkaði næst mest eða um 1,5%.

Festi hækkaði næst mest í dag eða um 2% í 466 milljóna króna veltu og standa bréf félagsins nú í 206 krónum. Fyrr í dag var greint frá því að rekstrarhagnaður félagsins hefði tvöfaldast á öðrum ársfjórðungi ársins. Marel hækkaði næst mest eða um 1,9% og eru bréf félagsins nú komin í 909 krónur.