Íslandsbanki hefur að undanförnu hafið að kalla eftir upplýsingum um kynjaskiptingu á ritstjórnum fjölmiðla. Bankinn gaf út í haust að hann hygðist ekki versla við fjölmiðla sem byðu upp á afgerandi kynjahalla. Í því samhengi vísaði bankinn til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um jafna stöðu kynjanna.

Bankinn var gagnrýndur fyrir afskipti af frjálsri fjölmiðlun. Um leið voru spurningar voru settar við hvort aðrir aðilar á vegum ríkisins væru ekki betur til þess fallnir að hafa eftirlit með ritstjórnum fjölmiðla.

„Ég held að viðbrögðin við þessu hafi sagt til um að fólk sé almennt til í að tala um hlutina en ekki framkvæma,“ sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka um málið í viðtali við Viðskiptablaðið í janúar.

„Við erum búin að samþykkja okkar samfélagsstefnu sem snýr að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og jafnrétti kynjanna er eitt af þeim. Við viljum svo sannarlega vera sterkt hreyfiafl í þessum efnum. Þetta var þung umræða sem við lentum í, við sjáum ekki eftir að hafa sett málið á dagskrá en hefðum getað verið skýrari í framsetningu. Umræðan hreyfði við mörgum og við áttum góð samtöl við viðskiptavini. Þetta var einn af stærstu mánuðunum okkar í nýjum einstaklingum í viðskiptum en neikvæð viðskiptaleg áhrif voru hverfandi," sagði Birna.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .