Guðmundur Hreiðarsson er einn þriggja stofnenda danska fjártæknifyrirtækisins Aiia, sem MasterCard keypti í síðasta mánuði . Hann segir Aiia hafa sprottið upp úr fjártæknifyrirtækinu Spiir sem hann stofnaði ásamt öðrum.

„Við vorum þrír sem stofnuðum Spiir í Danmörku árið 2011, með það að markmiði að bæta líf fólks. Hugmyndin var að búa til einhvers konar tól sem hjálpar fólki að ná utan um fjármál sín, bæði með bókhaldi og áætlunum en líka með því að veita því gagnlega innsýn og upplýsingar á réttum tíma. En það kom fljótlega á daginn að til þess þyrftum við aðgang að gögnum banka, sem var hægara sagt en gert því bankageirinn var mjög lokaður, meðal annars af lagalegum ástæðum og vegna öryggissjónarmiða. Þannig að það var ótrúlega erfitt að fá bankana til þess að vera með," segir Guðmundur.

Í hugum þeirra hjá Aiia er það grundvallaratriði að notandi hafi fullan rétt á að nota eigin gögn og peninga á þann hátt sem hann vill. „Það er það sem við vorum að berjast fyrir á þessum tíma," segir Guðmundur og bætir við:

„Við fórum því að byggja upp tengingar við bankageirann, sem var að miklu leyti í óþökk geirans. Þetta var erfiður slagur og við lentum til dæmis í slagsmálum við banka þar sem okkur var hótað lögsóknum, við kallaðir hakkarar og þvíumlíkt, fyrir það eitt að berjast fyrir því sem þeirra kúnnar vilja fá."

PSD2 löggjöfin vendipunktur

„Það breytti öllu fyrir okkur þegar Evrópulöggjöfin PSD2 kom til og bankar voru skyldaðir til þess að veita aðgang að gögnum. Í stað þess að við værum að reyna að banka upp á hjá bönkunum, þá voru bankarnir allt í einu að koma til okkar og vildu vinna með okkur vegna þess að við vorum orðnir sérfræðingar í einhverju sem var að gerast í geiranum, þannig að það var ákveðinn vendipunktur," segir Guðmundur.

Þau höfðu verið að þróa Spiir-appið en höfðu í raun eytt mestri orku í að byggja innviði til að tengjast við banka.

„Þannig að þegar PSD2 kom vorum við með þessa innviði tilbúna. Við sáum að það var mikil þörf á slíkum lausnum innan geirans og því tækifæri að bjóða okkar lausn til annarra fyrirtækja og það varð upphafið að því sem við kölluðum Nordic API Gateway og varð síðar Aiia. Sú grunnsýn okkar í Spiir, að hjálpa fólki að gera það sem það vill með þau gögn og þá peninga sem það á, hélt áfram í Aiia nema þar vorum við að hjálpa öðrum fyrirtækjum að gera það mögulegt. Við köllum þetta „open banking that simply works", eða opnar bankalausnir sem einfaldlega virka."

Nánar er rætt við Guðmund í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .